Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, virðist ekki hafa áhyggjur af tímabundinni sniðgöngu auglýsenda á samfélagsmiðlinum. Fjölmörg fyrirtæki hafa tekið þátt í herferðinni #StopHateForProfit sem felst í að stöðva auglýsingaherferðir á samfélagsmiðlum vegna hatursorðræðu á stafrænum verkvöngunum (e. digital platforms).

„Mín spá er að öll þessi fyrirtæki munu bráðlega snúa aftur til verkvangsins,“ á Zuckerberg að hafa sagt við starfsmenn fyrirtækisins. „Við ætlum ekki að breyta okkar stefnum og nálgun vegna ógnar á litla prósentu af tekjunum okkar.“

Facebook hefur staðfest ummæli Zuckerberg sem voru lekin á vefsíðu fréttaveitunnar The Independent . Fyrirtækið tilkynnti einnig að Zuckerberg muni funda með skipuleggjendum herferðarinnar, að því er segir í frétt BBC .

Fyrirtæki sem hafa tímabundið hætt að auglýsa á samfélagsmiðlum eru meðal annars Unilever, Verizon, Adidas, Coca-Cola, Ford og HP. Um þriðjungur fyrirtækja sem tóku þátt í könnun Alþjóðasamtaka auglýsenda sögðust ætla eða væru líkleg til þess að taka þátt í herferðinni.