Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, er sannfærður um að greiðar samgöngur séu besta byggðastefnan. Þar með talin eru jarðgöng, ferjur og flug að mati Benedikts. Þetta skrifar hann á Facebook síðu sína og deilir pistli Ívars Ingimarssonar, um ójafnvægi á milli höfuðborgar og landsbyggðar þegar kemur að samgöngumálum.

Ráðherrann skrifar að með því að líta á flug sem almenningssamgöngur fyrir þá sem sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu áynnist margt. „Flugferðir urðu tíðari og hagkvæmari. Þannig yrði ferðaþjónustan sterkari á þessum svæðum. Ungt fólk sem vill nýta sér kosti þess að búa á landsbyggðinni gæti notið þjónustu og menningar á höfuðborgarsvæðinu mun tíðar. Margir telja að slíkt tal sé landsbyggðarvæl, en það er einfaldlega góður bisness að fólk vilji búa annars staðar en í Reykjavík,“ skrifar fjármála- og efnahagsráðherra. Að lokum bætir hann við að þannig sé hægt að byggja upp ferðaþjónustu og ýmiss konar iðnað tengdan sjávarútvegi víð um landið.

Vill gera innanlandsflug að almenningssamgöngum

Í grein Ívars Ingimarssonar, sem var meðal annars þekktur knattspyrnumaður, sem birtist á vefmiðlinum Kjarnanum , talar hann fyrir því að það þurfi að byggja upp sterka byggðakjarna í hverjum fjórðungi sem hafa gott aðgengi að höfuðborginni. Hann skrifar um skosku leiðina, þar sem að innanlandsflug er gert að almenningssamgöngum. „Að gera inn­an­lands­flug að almenn­ings­sam­göngum eins og gert er í Skotlandi er ein­föld og fljót­leg leið til að stuðla að þessu jafn­vægi, slíkt aðgerð mun styrkja þá byggð­ar­kjarna sem nú þegar hafa sýnt sig að fólk vill búa á,“ skrifar Ívar Ingimarsson.