Tveir af æðstu stjórnendum Tesla og yfir 10% starfsmanna hefur verið sagt upp störfum. Félagið var með 140 þúsund starfsmenn í árslok 2023.

Tesla hefur lækkað um 5,34% á Wall Street í dag en lækkunin nemur 34,82% frá áramótum.

Þrátt fyrir mikla gengislækkun er enginn bílaframleiðandi með hærra markaðsverð og Tesla og fyrirtækið náði aftur efsta sætinu af BYD á fyrsta ársfjórðungi yfir mest seldu rafbílana.

Elon Musk forstjóri Tesla og stærsti eigandi félagsins sendi starfsmönnum tölvupóst í dag. Wall Street Journal greinir frá innihald póstsins.

Musk segir í póstinum að vöxtur þessa árs verði mun minni en áætlað var, starfsmönnum verði fækkað, nauðsynlegt sé að draga úr kostnaði og auka framleiðni.

Drew Baglino, einn fjögurra yfirmanna sem birtir eru á heimasíðu Tesla og starfsmaður til 18 ára, tilkynnti á X fyrir skömmu að það væri erfið ákvörðun að yfirgefa fyrirtækið.

Baglino var yfir drifbúnaði og rafhlöðum og birtist oft með Musk að fundum. Hann hóf störf í yfirstjórn Teslu árið 2019.

Hinn yfirmaðurinn sem hættir er Rohan Patel sem var yfir viðskiptaþróun félagsins. Hann tilkynnti einnig um brotthvarf sitt á X.

Rafbílar gefa eftir en tvinnbílar gefa í

Sala á tvinnbílum í Bandaríkjunum jókst um 43% á fyrsta ársfjórðungi en sala rafbíla jókst aðeins um 2,7%.

Þetta hefur komið sér mjög vel fyrir Toyota hefur lagt miklu meiri áherslu á tvinnbíla. Japanski bílarisinn hefur hækkað um 42,96% það sem af er ári.