Mikil spenna ríkir nú í Brussel, höfuðborg Belgíu, vegna yfirvofandi hryðjuverkahættu. Viðburðum hefur verið aflýst og lestarsamgöngur liggja niðri.

CNN hefur eftir hryðjuverkasérfræðingnum Paul Cruickshank að yfirlýsingar lögreglu bendi til þess að yfirvöld telji áþreifanlega hættu steðja að íbúum Brussel, en jafnframt að ekki séu nægar upplýsingar um hverjir standi að baki ógninni og hvernig undirbúningi hugsanlegra árása er háttað.

Ómögulegt að fylgjast með öllum, alltaf

Yfirlýsingar belgískra yfirvalda vekja spurningar um hvaða upplýsingar yfirvöld hafa raunverulega um hryðjuverkamenn. Louis Caprioli, fyrrverandi yfirmaður hjá frönsku leyniþjónustunni, segir að til þess að fylgjast með grunuðum hryðjuverkamanni allan sólarhringinn þurfi átján til tuttugu leyniþjónustumenn. Það sé ómögulegt að fylgjast með öllum þeim 20 þúsundum manna sem eru á lista franskra yfirvalda yfir grunaða öfga- og hryðjuverkamenn.

Caprioli bendir á að sé fjöldi grunaðra öfgamanna margfaldaður með þeim mannskap sem þarf til að fylgjast með hverjum og einum þurfi 400 þúsund leyniþjónustumenn til að vinna verkið. Það sé þrefaldur fjöldi þeirra lögreglumanna og þjóðvarðliða sem var kallaður út í Frakklandi í kjölfar árásanna í París í síðustu viku.

Fylgjast með um 90 manns

Að sögn Reuters var Samy Amimour, einn þeirra sem frömdu árásirnar í París, undir eftirliti frönsku lögreglunnar þegar árásin var framin. Hann var meðal 95 manna á lista franskra yfirvalda yfir einstaklinga sem þarf að hafa stöðugt eftirlit með vegna gruns um að þeir vilji ganga til liðs við hryðjuverkasamtök í Írak og Sýrlandi.

139 einstaklingar til viðbótar eru í varðhaldi vegna þess að þeir eru taldir hættulegri eða of líklegir til að flýja.