Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, segir að það komi á óvart hve harður Seðlabankinn sé í framsýnu leiðsögninni. Hann segir þó að það hafi ekki endilega komið á óvart að vextir hafi ekki verið lækkaðir núna meðal annars vegna óvissuþátta varðandi ríkisstjórnarmyndun.

„Hluti markaðar hafði verið byrjaður að byggja sér upp væntingar um vaxtalækkun. Það voru vísbendingar uppi um vaxtalækkun á næstu misserum. Það sem kemur einna helst á óvart, þó að það hafi ekki endilega óvart að það hafi ekki lækkað vexti núna vegna óvissuþátta varðandi ríkisstjórnarsamstarfs, þá kemur á óvart hve harðir þeir eru í framsýnu leiðsögninni,“ segir Valdimar í samtali við Viðskiptablaðið.

„Þeir slá nánast vaxtalækkanir af borðinu,“ segir Valdimar. Það kemur aðeins á óvart að hans sögn. „Svo kemur það einnig á óvart að þeir virðast ekki ætla að breyta neinu varðandi inngripastefnuna, sem áður hafði verið gefið til kynna. Rökstuðningurinn fyrir því að vera með óbreytta vexti eins og staðan er núna ásamt því að hafa óbreytta inngripastefnu er ekki alveg einstæður,“ að mati Valdimars.

Ákveðin vonbrigði

Valdimar segir að það hafi komið í ljós við opnun markaðar að ákvörðun Seðlabankans hafi verið álitin nokkur vonbrigði. „Það var kröfuhækkun í upphafi og hlutabréf voru að einhverju leyti seld. Það hefur þó eitthvað jafnað sig eitthvað á hlutabréfamarkaðinum — hann er óbreyttur að lokum. Á skuldabréfamarkaði var þó kröfuhækkun,“ segir hann.

Aðspurður um áhrif stjórnarmyndunarviðræðna á markaðinn segir Valdimar að það sé í raun óvissan sem hafi mest áhrif. Hún hafi að hans sögn aðallega áhrif vegna þess að efnahagsstefnan er ekki skýr. „Það er ekki skýrt hvernig útgjöldum ríkisfjármála verður háttað með breyttri ríkisstjórn. Það er ekki ljóst hvernig næsta ríkisstjórn hagar afléttingu hafta og ýmislegt annað, sem hefur áhrif á fjárfestingarákvarðanir á markaði,“ segir hann að lokum.