Þórður Magnússon mun ekki gefa kost á sér í stjórn Eyris Invest á aðalfundi félagsins sem verður haldinn þann 10. maí næstkomandi. „Eftir að hafa stofnað Eyri Invest með Árna Oddi og leitt félagið í 23 ævintýraleg ár tel ég að nú sé kominn tími á breytingar sem felast í því að ég víki fyrir framúrskarandi fólki sem hefur áhuga á að leiða félagið til framtíðar,“ er haft eftir Þórði í tilkynningu til fjölmiðla.

„Á undanförnum árum hef ég fyrst og fremst litið svo á að ég sé í hlutverki mentors til að styðja við afburðahæft fólk hjá Eyri og félögunum en nú blasir við að þau eru fullfær um að taka við keflinu og axla enn meiri ábyrgð. Ég mun þó áfram sinna spennandi stjórnarverkefnum og vonandi geta stutt áfram við sprota og fólk framtíðarinnar,“ segir Þórður jafnframt.

Friðrik Jóhannsson, Elín Sigfúsdóttir, Þórður Magnússon, Herdís Dröfn Fjeldsted og Signý Sif Sigurðardóttir.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Friðrik Jóhannsson og Elín Sigfúsdóttir lögð til í stjórn

Stjórn félagsins leggur til að aðalfundurinn kjósi Friðrik Jóhannsson og Elínu Sigfúsdóttur ný inn í stjórn og að Hrund Gunnsteinsdóttir, Ólafur Steinn Guðmundsson og Stefán Árni Auðólfsson verði endurkjörin.

Í tilkynningu kemur fram að breytingunum sé ætlað að tryggja að fjölbreytt hæfni, þekking og reynsla sé í stjórn Eyris Invest. Friðrik Jóhannsson hefur síðast sinnt stjórnunarstörfum á sviði eignastýringar, tryggingarekstrar og fjárfestingabankastarfsemi og hefur setið í yfir 30 stjórnum, þar á meðal Marel, Eimskip og Kauphöllinni.

Elín Sigfúsdóttir starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans og síðar sem bankastjóri auk þess að hafa setið í stjórnum og bankaráði Búnaðarbankans.

Þórður kemur til með að sinna öðrum áhugamálum eftir að láta af stjórnartaumunum hjá Eyri Invest. „Svo er það auðvitað svo að lífið hefur upp á svo margt að bjóða og okkur hjónin langar að sinna öðrum áhugamálum á meðan við búum svo vel að vera við góða heilsu og hafa tækifæri til. Því hlakka ég til að njóta framtíðarinnar og fylgjast sem hluthafi með vexti Eyris, Marel og félaganna sem við erum svo stolt af að hafa komið að,“ segir Þórður.

Áhrif félagsins víða í íslensku viðskiptalífi

Eyrir Invest er fjárfestingafélag í eigu fagfjárfesta og fjársterkra einstaklinga sem hefur stutt leiðandi fyrirtæki á Íslandi til vaxtar á síðustu tuttugu árum. Eyrir er m.a. stærsti hluthafi Marel hf. og á auk þess kjölfestuhlut í Eyri Sprotum, Eyri Vexti og allt hlutafé í Eyri Ventures sem fjárfestir í sprota- og vaxtarfyrirtækjum. Þessir sjóðir eru þátttakendur í fjölmörgum fyrirtækjum af ólíkum stærðargráðum í íslensku viðskiptalífi.

Stærstu hluthafar Eyris eru Þórður Magnússon (20,7%), Árni Oddur Þórðarson (18,1%), Landsbankinn (14,2%), LSR, B-deild (11,6%) og Lífeyrissjóður verslunarmanna (11,3%)