Þrettán umsóknir bárust um embætti ráðuneytisstjóra atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Embættið var aulýst til umsóknar 30. apríl og rann umsóknarfrestur út á þriðjudag. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Meðal umsækjenda má nafn Borghildar Erlingsdóttur, forstjóra Hugverkastofunnar, og Katrínar Olgu Jóhannesdóttur, fyrrverandi formanns Viðskiptaráðs Íslands og framkvæmdastjóra Kríu konsulting. Sömu sögu má segja af Kolbeini Árnasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra SFS og núverandi skrifstofustjóra matvælaöryggis og fiskeldis. Þess má til gamans geta að faðir hans, Árni Kolbeinsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, var eitt sinn ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu.

Þórlindur Kjartansson, ráðgjafi, pistlahöfundur, og fyrrverandi formaður SUS, sækir einnig um. Að endingu má finna meðal umsækjenda nokkurn fjölda skrifstofustjóra úr hinum ýmsu ráðuneytum. Má þar nefna fyrrnefndan Kolbein sem og Benedikt Árnason, Guðrúnu Þorleifsdóttur og Sigrúnu Brynju Einarsdóttur.

Skipað verður í stöðuna frá og með 1. júlí næstkomandi af Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Lista með nöfnum umsækjenda má sjá hér að neðan.

  • Aishwarya G Malayi, íþróttakona
  • Ásta Magnúsdóttir, lögfræðingur
  • Benedikt Árnason, skrifstofustjóri
  • Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri
  • Bragi Bjarnason, deildarstjóri
  • Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri
  • Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri
  • Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri og óháður stjórnarmaður
  • Kolbeinn Árnason, skrifstofustjóri
  • Rögnvaldur Guðmundsson, verkefnastjóri
  • Sigrún Brynja Einarsdóttir, skrifstofustjóri
  • Þorgeir Pálsson, rekstrarhagfræðingur
  • Þórlindur Kjartansson, ráðgjafi á sviði stefnumótunar og stjórnunar