*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Innlent 6. september 2017 09:48

„Þú gast farið í sturtu undir þessu"

Húsasmíðameistari í OR húsinu segir að lítið hafi verið gert úr sér vegna viðvarana um ónýt gólf. Segir að dropað hafi í 10 mín eftir að hafa borað inn í þau.

Ritstjórn
Nordic photos

Sigurður Waage húsasmíðameistarinn sem lagði parketið í höfuðstöðvar Orkuveitunnar segir aðvaranir sínar um ástand gólfa í höfuðstöðvum Orkuveitunnar hafa verið hundsaðar. Viðskiptablaðið hefur fjallað um húsið sem lekur peningum vegna þess gríðarlega kostnaðs sem varð af byggingu þess og þann kostnað sem nú leggst til viðbótar vegna umtalsverðra galla sem leitt hafa til rakaskemmda.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hafa bæði Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn í minnihlutanum í borgarstjórn kallað eftir rannsókn á bæði því hvers vegna kostnaður við bygginguna hafi farið langt fram úr áætlunum, sem og viðhaldi og ástæðum milljarða króna tjóns á húsinu.

Lá svo á að lögðu parket á hráblaut gólfin

Sigurður segir að þeir sem stóðu að framkvæmdunum hafi legið svo á að honum hafi verið gert að leggja parket á hráblaut gólf vesturhúss höfuðstöðvanna að því er Fréttablaðið greinir frá.

„Ég varaði við þessu og það var gert lítið úr mér. Þá fékk ég uppáskrifað að ég myndi aldrei bera ábyrgð á þessu,“ segir Sigurður. „Ég var ekki sáttur við að leggja ætti rakavarnarlag ofan á blaut gólfin. Þú lokar ekki rakann inni því allt efni sem við byggjum úr þarf súrefni. Það er eðlilegt að það sé raki en hann verður að komast einhvers staðar út.“

Sigurður sagði á fundi undirverktaka að „gólfin yrðu aldrei í lagi“ en ekki er um hefðbundin steypt gólf að ræða heldur trapisustálgrind með lagnarennum sem síðan hafi verið steypt í. 

„Þetta voru eins og fjallgarðar“

Það reyndist rétt því skipta þurfti um gólfefnin skömmu eftir að húsið var tekið í notkun árið 2003.

„Ég var bara jarðaður. Ég sagði að ég gæti ekki borið ábyrgð á þessu og lagði til að leggja teppi í ár meðan gólfið næði eðlilegum raka. Þá sagði eftirlitsverkfræðingur við mig: „Við erum hér til að leysa málin, drengur,“ og með því var það afgreitt.“ segir Sigurður. „Ég sagði að ég myndi vilja fá yfirlýsingu um að ég bæri enga ábyrgð á þessum gólfum því þau yrðu alltaf sjúk. Sem ég og fékk.“

Viðskiptablaðið ryfjaði upp fyrir helgi skýrslu úttektarnefndar um OR frá árinu 2012 og vitnisburð Ólafs Jónssonar lögfræðings og fyrrverandi ritara stjórnar fyrirtækisins sem talaði um gengdarlausa sóun og sukk við byggingu hússins, og að það hafi endalaust lekið út. „Þetta voru eins og fjallgarðar, eins og Alpafjöllin bara“ sagði Ólafur til að mynda um upphleypt parketið af rakanum.

Bólgið parket fest aftur niður

Sigurður segir að teppið hafi mögulega hjálpað gólfunum en síðan hafi komið í ljós að útveggirnir væru einnig ónýtir.

„En ekki gleyma því að raki úr gólfunum leiðir út í þessa veggi. Í austurbyggingunni er bara venjulegt gólf, engin stálkápa undir og þar er allt í lagi. En hin gólfin eru helsjúk, vegna þess að þar er röng hönnun,“ segir Sigurður sem hafi í eitt sinn borað upp í gólfið fyrir ofan til að sýna rakann.

„Þú gast farið í sturtu undir þessu. Það lak í tíu mínútur. En ennþá héldu þeir fram að þetta væri í lagi.“ Byggingarstjóri hússins vill meina að allt hafi verið feldu með lagningu gólfefnisins, en skipt hafi verið um hluta þess en annars staðar, þar sem það hafi verið farið að bólgna, hafi það verið fest niður í gólfplötuna.