Stærstu sveitarfélögin á Austurlandi, Fjarðabyggð og Fljótdalshérað, eru verulega skuldsett og fyrir liggur að þau munu bæði tvö þurfa að gæta strangs aðhalds í rekstrinum á næstu árum eigi þau að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og ekki síst geta uppfyllt skilyrði í nýjum sveitarstjórnarlögum um hámarksskuldahlutfall sveitarfélaga.

Þar er miðað við að skuldir sveitarfélaga nemi ekki meira en 150% af tekjum, að vísu að teknu tilliti til mögulegra peningalegra eigna, fjárfestinga í hjúkrunarheimilum þar sem tekjur koma á móti með langtímasamningi við ríkið o.s.frv. Þá er skuldsettum sveitarfélögum gefin allt að tíu ár til þess að ná umræddu marki.

Miðað við stöðuna í lok árs 2010 voru bæði sveitarfélögin langt yfir 150% markinu en skuldir og skuldbindingar samstæðu Fjarðabyggðar (sveitarsjóður og fyrirtæki og stofnanir í eigu þess) námu 253% af tekjum og hlutfallið hjá Fljótsdalshéraði var 288% og skuldir samstæðu á hvern íbúa voru yfir tvær milljónir króna í báðum sveitarfélögunum.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.