Þýskir þingmenn ræða nú hvort heimila eigi viðræður um 86 milljarða evra neyðaraðstoð til Grikklands, en Þýskaland er eitt af nokkrum evruríkjum sem þurfa að gefa grænt ljós á að viðræðurnar fari fram. BBC News greinir frá þessu.

Gríska þingið hefur þegar samþykkt umfangsmiklar niðurskurðaraðgerðir og skattahækkanir sem gerðar voru að skilyrði fyrir því að landið fengi neyðarlán. Fastlega er búist við því að meirihluti þýska þingsins greiði því atkvæði að viðræðurnar fari fram.

Tilkynnt var í gær að grískir bankar myndu opna aftur á mánudag, en tilkynningin barst eftir að Seðlabanki Evrópu ákvað að veita bönkunum fé til þess að sporna gegn lausafjárvanda þeirra. Hins vegar eru takmarkanir á úttektum enn til staðar og geta grískir ríkisborgarar aðeins tekið 60 evrur að hámarki út úr bönkum landsins dag hvern.