*

mánudagur, 18. janúar 2021
Fólk 27. október 2020 13:39

Tinna nýr formaður Grapíku Íslandicu

Samtök kvenna í grafískri hönnun hafa kosið Tinnu Pétursdóttur sem formann. „Þetta er mjög karllægt umhverfi,” segir Tinna.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Tinna Pétursdóttir var kjörin formaður Grapíku Íslandicu, samtaka kvenna í grafískri hönnun á Íslandi á aðalfundi samtakanna, sem fram fór á Zoom í ljósi aðstæðna, fyrir skemmstu. Samtökin voru stofnuð á Kvennafrídaginn, 24.október 2017 og er megin tilgangur samtakanna að gera konur í faginu sýnilegri.

Tinna, sem er hönnunarstjóri og annar eigandi auglýsinga- og almannatengslastofunnar Ampere, gegndi áður hlutverki varaformanns og hefur hún nú tekið við keflinu af fyrrum formanni, Þórhildi Laufeyju Sigurðardóttur.

Þórhildur situr áfram í stjórn samtakanna en það gera einnig þær Íris Ösp Sveinbjörnsdóttir, Guðjóna Björk Þorbjarnardóttir og Vigdís Hlíf Sigurðardóttir. Nýjar inn í stjórn eru Áslaug Baldursdóttir, Heiðdís Halla Bjarnadóttir og Elín María Halldórsdóttir.

„Við erum spenntar fyrir komandi tímum, enda gróska meðal kvenna í stéttinni. Nýkjörin stjórn hefur sammælst um að ráðast í framkvæmd óháðrar úttektar á stöðu kvenna innan geirans. Sú vinna er yfirgripsmikl og höfum við þegar hafist handa við að leita að styrkveitingu til þess að verkið geti orðið að veruleika. Grapíkur eru sammála um að þörf sé á að breyta ríkjandi normi í þessum geira og auka verulega á fjölbreytni í því sjónræna efni sem skapað er innan hönnunarsenunnar,” segir Tinna.

„Þetta er mjög karllægt umhverfi sem hefur bein áhrif á lokaafurðina, skilaboðin sem sett eru fyrir fram okkur öll, konur og karla. Stjórnin hefur sömuleiðis einsett sér á þessu tímabili að leggja höfðuáherslu á að efla net kvenna í skapandi störfum, opna á umræður og fræðslu á þessum einkennilegu tímum. Við finnum að þörfin fyrir slíkt hefur sjaldan verið eins rík og núna og það er spennandi að mæta þessum nýju áskorunum.“