Á árinu 2006 námu heildarkaup á ferðaþjónustu innanlands tæplega 135 milljörðum króna samkvæmt tölum. Vilborg Júlíusdóttir, sem hefur m.a. umsjón með þjóðhagsreikningum hjá Hagstofu Íslands, benti á það í erindi sem hún flutti á afmælisráðstefnu Samtaka ferðaþjónustunnar í gær, að í núverandi efnahagsástandi gætu falist óvænt tækifæri. Þar vísaði hún til þess að útgjöld Íslendinga á ferðalögum erlendis hafi verið rúmir 85 milljarðar króna á árinu 2007. Hún telur því að í yfirstandandi kreppuástandi geti falist tækifæri fyrir innlenda aðila í ferðaþjónustu þar sem væntanlega dragi mjög úr ferðalögum Íslendinga til útlanda.

11,5% af landsframleiðslu

Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta sinn ferðaþjónustureikninga fyrir Ísland samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Niðurstöður þessara reikninga sýna meðal annars að árin 2000-2006 var hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu að meðaltali 4,6%. Árið 2006 námu heildarkaup á ferðaþjónustu innanlands tæplega 135 milljörðum króna, eða sem svarar til 11,5% af landsframleiðslu.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .