*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Innlent 1. október 2020 08:15

Tókst ekki að endursemja við 365

Icelandair stóð undir 35-40% af veltu Íslensku auglýsingastofunnar. Ekki tókst að endursemja um leigu við 365 vegna samdráttar.

Ingvar Haraldsson
Hjalti Jónsson, framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar.
Aðsend mynd

Icelandair Group stóð undir um 35-40% af veltu Íslensku auglýsingastofunnar. Stjórn auglýsingastofunnar ákvað á þriðjudag að óska eftir að hún yrði tekin til gjaldþrotaskipta. Ár er síðan Icelandair Group tilkynnti að félagið hygðist færa viðskipti sín frá Íslensku auglýsingastofunni eftir áratugasamstarf, yfir til Hvíta hússins. „Við höfum unnið að því að skala fyrirtækið niður og stilla það af á síðustu 12-18 mánuðum,“ segir Hjalti Jónsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Íslensku auglýsingastofunnar.

Í tilkynningu sem Íslenska auglýsingastofan sendi út á þriðjudag kom fram að ekki hefði tekist að afla nægjanlegra nýrra verkefna til að mæta samdrættinum. Þá hafi viðræður um endurskoðun á leigusamningi í ljósi breyttra rekstarforsenda ekki borið árangur. Íslenska auglýsingastofan flutti í nýtt húsnæði að Bræðraborgarstíg 16 árið 2017. 365 hf. keypti húsið síðasta vetur en Ingibjörg Pálmadóttir fjárfestir er aðaleigandi 365.

Hjalti segir að sjö ár hafi verið eftir af leigusamningnum sem var óuppsegjanlegur. „Það má segja að leigusamningurinn hafi verið um tveimur númerum of stór miðað við breyttar rekstrarforsendur. Samningurinn var orðinn myllusteinn um hálsinn á stofunni,“ segir Hjalti.

Hann leggur þó áherslu á að það hafi ekki verið eina ástæðan fyrir því að ákveðið hafi verið að hætta starfsemi. „Samningurinn var ein af þeim forsendum sem við litum til þegar við tókum þessa ákvörðun,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér