*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 31. maí 2013 11:36

Töldu ekki ástæðu til að senda út afkomuviðvörun

Þrátt fyrir 5% tekjusamdrátt og 22% samdrátt á EBITDA hagnaði félagsins var ekki send út afkomuviðvörun af hálfu Vodafone.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Vodafone birti ekki afkomuviðvörun fyrir fyrsta ársfjórðung þrátt fyrir 5% tekjusamdrátt upp á 150 milljónir króna og 22% lækkun á EBITDA hagnaði samstæðunnar. Þegar Ómar Svavarsson, forstjóri félagsins, kynnti uppgjörið í gærmorgun var hann ítrekað spurður um ástæðurnar að baki því að stjórnendur félagsins hafi ekki séð ástæðu til að birta afkomuviðvörun.

„Ef að stjórnendur félaga sjá fram á að afkoman er miklu verri en fyrra ár þá ber að senda út tilkynningu. Það er okkar mat að svo sé ekki," sagði Ómar í samtali við VB sjónvarp í gær um þá ákvörðun og vísaði í reglur Kauphallarinnar.

Á fundinum nefndi hann til sögunnar ýmsa kostnaðarliði sem falla til í bókum félagsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en féllu til á öðrum tíma á síðasta ári og breyta því engu í rekstri félagsins. Nefndi hann meðal annars bókfærðan kostnað vegna orlofs starfsmanna sem nú er færður mánaðarlega. Einnig nefndi hann kostnað vegna árshátíðar starfsmanna, sem Viðskiptablaðið fjallaði um í gær, sem var á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en á öðrum ársfjórðungi síðasta árs.

Reglur kauphallar

Í reglum íslensku kauphallarinnar, Nasdaq OMX Iceland, fyrir útgefendur fjármálagerninga er fjallað um hvenær skuli birta afkomuviðvörun. „Þegar félag hefur ekki birt afkomuspá eða aðra yfirlýsingu um áætlaða afkomu og afkoma þess eða fjárhagsstaða sýnir óvænt og afgerandi frávik frá eðlilegu mati á grundvelli upplýsinga sem það hefur áður birt, þá ber félaginu að birta tilkynningu um málið ef frávikið er álitið verðmótandi,“ segir þar meðal annars. Vodafone fellur í þennan flokk þar sem það hefur ekki birt afkomuspá fyrir rekstur félagsins. Ekki er skýrt kveðið á um hvort ákvörðun um birtingu afkomuviðvörunar sé í áburgð stjórnar eða framkvæmdastjórnar félaga. Segir í reglunum að ef verulegar breytingar verða á fjárhagsstöðu félags milli uppgjörstímabila skal félagið sjálft meta þörfina á því að birta tilkyningu um breytingarnar.

Í ákvæðinu er lögð áhersla á að félög sem ekki birta afkomuspár kunni að vera skuldbundin til að birta tilkynningu um afgerandi breytingar á fjárhagsstöðu sinni; t.d. gæti afkoma félags hafa breyst af völdum stöðugra breytinga á veltu og kostnaði fremur 24(50) en af völdum einstakra ákvarðana eða atvika. Ef félag verður vart við verulegar uppeða niðursveiflur í hagnaði milli uppgjörstímabila sem sýna frávik frá þeim upplýsingum um stöðu félagsins sem áður hafa verið birtar, þá ber félaginu að tilkynna um slíkt. Þegar metið er hvort frávikið sé nægilega verðmótandi og óvænt skal, t.d., skoða hvort um sé að ræða eðlileg árstímabundin áhrif, áður þekkt dæmi um rekstrarafkomu eða þætti sem tengjast viðkomandi atvinnugrein sérstaklega,“ segir enn fremur í reglunum.

Stikkorð: Vodafone