*

laugardagur, 4. apríl 2020
Innlent 10. desember 2019 13:23

Tollabreytingar gætu þýtt skort á mat

FA vill breitt samtal um breytingar á lögum um tolla á landbúnaðarafurðir. SVÞ deila við SI í sama húsi um málið.

Ritstjórn
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félag atvinnurekenda sem stillt hefur sér upp með SI og aðildarfélögum Bændasamtakanna gegn frumvarpi um afléttingu tolla á landbúnaðarafurðir sem Samtök verslunar og þjónustu styðja.
Haraldur Guðjónsson

Félag atvinnurekenda segir að frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á tollalögum um landbúnaðarafurðir geti þýtt að reglulega komi upp skortur á matvörum í landinu með tilheyrandi verðhækkunum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær var félagið, ásamt Neytendasamtökunum og Samtökum iðnaðarins sammála aðildarfélögum Bændasamtaka Íslands um frestun frumvarpsins, sem Samtök verslunar og þjónustu gagnrýndi harðlega en þau deila húsnæði með SI.

FA segir ástæður þessara mismunandi félagasamtaka til að biðja um frestun frumvarpsins vera mismunandi en öll hafi þau verið sammála um að vinna þyrfti málið betur. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri félagsins segist sakna þess sem hann kallar það breiða samtal sem fram hafi farið um endurskoðun búvörusamninganna á síðasta kjörtímabili.

Ráðherra hafi hins vegar ákveðið í upphafi embættistíðar sinnar að endurskipa hópinn og þrengja samtalið sem FA hafi andmælt harðlega á sínum tíma. Félagið hafi jafnframt bent á að hægt væri að draga úr neikvæðum áhrifum frumvarpsins með því til að mynda uppskerutengdum greiðslum vegna útiræktaðra garðyrkjuafurða, þar á meðal kartaflna, geng lækkun eða niðurfellingu tollverndar.

Eftir fund með ráðhera nú hafi öll samtökin ellefu, utan Neytendasamtakanna, sent atvinnuveganefnd nýja yfirlýsingu vegna málsins, þar sem hvatt er til þess að málinu verði vísað til þess sem kallað er heildræn stefnumótun í landbúnaði, þar sem að komi auk innflytjenda og framleiðenda, seljendur og neitendur, auk stjórnvalda.

Samtökin sem áttu aðild að yfirlýsingunni eru:

  • Bændasamtök Íslands
  • Félag atvinnurekenda
  • Samtök iðnaðarins
  • Landssamband kúabænda
  • Landssamband sauðfjárbænda
  • Félag eggjabænda
  • Félag kjúklingabænda
  • Félag svínabænda
  • Samband garðyrkjubænda
  • Sölufélag garðyrkjumanna.