Jean-Claude Trichet, forseti evrópska seðlabankans, varaði verkalýðsleiðtoga álfunnar við því í gær að gera of miklar launakröfur fyrir hönd umbjóðenda sinna í samningum við atvinnurekendur. Trichet ávarpaði ráðstefnu Samtaka evrópskra verkalýðsfélaga í Sevilla á Spáni í gær. Hann sagði að hægt væri að leysa atvinnuleysisvanda aðildarríkja Evrópusambandsins ef að launþegar sýndu hóf í launakröfum og legðu árar á bát við að bæta samkeppnisstöðuna gagnvart umheiminum. Hann lagði jafnframt áherslu á að verkalýðsfélög og atvinnurekendur væru saman á báti og hefðu skyldum að gegna gagnvart þeim sem hafa ekki atvinnu og þyrftu þar af leiðandi að halda niðri verðbólgu sökum tengsla milli stöðugleika og fjölgunar starfa í hagkerfinu.

Trichet hafði ekki salinn með sér í ávarpi sínu en sumir ráðstefnugesta sökuðu evrópska seðlabankann um að leggja áherslu á að berjast við "ímyndaðan dreka": verðbólguþrýsting á laun. Verkalýðsforingjarnir gagnrýndu jafnframt peningamálastefnu seðlabankans og segja vaxtarhækkanir undanfarin misseri skaða útflutningsiðnað í sambandinu.