Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra sjávarútvegsmála og Jakob Vestergaard sjávarútvegsráðherra Færeyja hafa skrifað undir tvíhliða samning um fiskveiðar fyrir árið 2014.

Samkomulag þjóðanna um gagnkvæman aðgang í lögsögum hvors annars á veiðum á kolmunna og norsk íslenskri síld stendur óbreytt frá fyrra ári, eftir því sem segir á vef atvinnuvegaráðuneytisins . Farið var ítarlega yfir samkomulag um veiðar Færeyinga á botnfiski við Ísland og þá sérstaklega hátt hlutfall keilu af aflanum. Horfur keilustofnsins eru því miður ekki jákvæðar og hefur ráðgjöf farið stiglækkandi. Ákveðið var að heildarmagn botnfisks stæði óbreytt, 5600 tonn, en að sett yrði þak á keiluaflann þannig að hann lækkaði um 350 tonn í ár og 350 tonn til viðbótar á næsta ári, niður í 400 tonn. Heimild til Færeyinga til þorskveiða eykst hins vegar um 175 tonn í ár og 175 tonn á næsta ári og verður þá 1.550 tonn.

„Færeyingar hafa haft heimild til loðnuveiða við Ísland og fá hlut af þeim afla sem fellur til Íslands innan loðnusamningsins. Rætt var hversu döpur nýliðin loðnuvertíð var, sú næstlélegasta í um 30 ár.  Sigurður Ingi fór yfir mikilvægi loðnunnar fyrir lífkerfi í hafinu við Ísland en loðnunni fylgja gríðarlegir orkuflutningar inn í lífkerfið.  Í ljósi þessa og óvissu með stöðu stofnsins fyrir næsta ár er mikilvægt að ræða hlut Færeyja á loðnuveiðunum. Ákveðið var að taka þessa umræðu upp í desember áður en næsta vertíð hefst og vísbendingar um ástands stofnsins eftir rannsóknir ársins liggja fyrir,“ segir á vef atvinnuvegaráðuneytisins.

Þá segir að ráðherrarnir hafi ákveðið  að til framtíðar yrði leitast við að auka samskipti Íslands og Færeyja á sviði fiskveiða enda sameiginlegir hagsmunir miklir.