Tvöföldun Hvalfjarðarganga virðist vera úr sögunni í fyrirsjáanlegri framtíð, miðað við áætlanir Spalar hf. og Vegagerðarinnar. Spölur hefur það ekki í hyggju að ráðast í framkvæmdina að eigin frumkvæði. Tvöföldun ganganna er ekki á samgönguáætlun, sem Vegagerðin hefur til hliðsjónar þegar stofnunin ákveður hvaða verkefni á að ráðast í.

„Boltinn er hjá ríkinu," segir Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar hf., sem á og rekur Hvalfjarðargöng. Áform félagsins gera ráð fyrir því að göngunum verði skilað til ríkisins á fyrri hluta árs 2019. Gísli býst ekki við því að Spölur fari að tvöfalda göngin úr því sem komið er, enda sé það ekki fjárhagslega skynsamlegt fyrir félagið. "En ég hef alltaf haldið því fram að þetta er bara tímaspursmál og augljóst verkefni. Það er bara spurning hvernig ríkið ætlar að glíma við það mál.“

Tvöföldun er tímaspursmál

Staðlarnir sem Vegagerðin fylgir kveða á um að meðalumferð um jarðgöng þurfi að vera 8.000 bílar á dag svo að skynsamlegt sé að tvöfalda þau. Gísli bendir á að sumarumferðin um Hvalfjarðargöng sé miklu meiri en vetrarumferðin. Um 7.000 bílar fóru um göngin á dag síðasta sumar.

„Mönnum líður að meðaltali sæmilega, en árið er mjög tvískipt. Og það er eitthvað sem ég held að Vegagerðin muni þurfa að skoða fyrr en síðar, hvernig eigi að bregðast við. Við höfum alltaf haldið því fram að umferðaröryggið sé fyrir öllu," segir Gísli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .