*

miðvikudagur, 20. október 2021
Erlent 28. ágúst 2017 08:22

Uber býður Dara forstjórastólinn

Dara Khosrowshah framkvæmdastjóri Expedia ferðaþjónustusíðunnar hefur verið boðið að taka við hjá Uber. Hann er fæddur í Íran.

Ritstjórn
Travis Kalanick, fyrrum forstjóri sagði af sér fyrr í mánuðinum vegna deilna innan fyrirtækisins.
epa

Leigubílaþjónustan Uber sem byggir á samnefndu snjallsímaforriti hefur boðið Dara Khosrowshah forstjórastarfið. Ákvörðunin hefur komið mörgum innan tæknigeirans á óvart að því er Business Insider segir frá, en hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri Expedia sem er bókunarsíða staðsett í Washington ríki.

Uber er nú verðmætasta frumkvöðlafyrirtæki heims í einkaeigu, verðmetið á meira en 60 milljarða Bandaríkjadala af fjárfestum sínum, sem jafngildir um 6.444 milljörðum íslenskra króna. En starfið verður ekki auðvelt enda hafa verið miklar deilur innan stjórnar og fyrirtækið ekki alls staðar átt upp á pallborðið í samkeppni við hefðbundnar leigubílaþjónustur sem oft byggja á einkaleyfum og samkeppnistakmörkunum.

Dara Khosrowshah er 48 ára gamall, en hefur verið framkvæmdastjóri Expedia í 12 ár. Undir hans stjórn hefur fyrirtækið vaxið úr því að vera með tekjur að jafnvirði 2,1 milljarð dala árið 2005 til 8,7 milljarða árið 2016. Varð Expedia á tímabilinu stærsta ferðaþjónustusíða í Bandaríkjunum.

Forstjórinn tilvonandi fæddist í Íran, en hefur alist upp mest allt sitt líf í Bandaríkjunum þangað sem hann flutti barn að aldri. Áður en hann tók við hjá Expedia starfaði hann bæði hjá IAC sem keypti Expedia, og hjá fjárfestingarbankanum Allen & Co.