Landsnet hefur samið við sænska kapalframleiðandann NKT Cables AB um kaup á þremur jarðstrengjum fyrir 66 kílóvolta spennu, samanlagt um 45 kílómetrar að lengd, vegna fyrirhugaðra verkefna á næsta ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsneti.

Kostnaður hljóðar upp á um 2,5 milljónir evra, en það jafngildir um 350 milljónum íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Samkomulagið var undirritað af forstjóra Landsnets og fulltrúum NKT í höfuðstöðvum Landsnets í dag.

„Þetta eru umfangsmestu jarðstrengjainnkaup sem Landsnet hefur ráðist í frá stofnun fyrirtækisins en kostnaðarlega séð er það orðið sambærilegt í dag að leggja raforkulínur á 66 kV spennu í jörð og byggja loftlínur. Það er enda stefna Landsnets að öðru jöfnu að velja jarðstrengjalausnir á umræddri spennu,“ segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets.

Jarðstrengirnir þrír verða notaðir til að endurbæta og styrkja raforkuflutningskerfið á Suður- og Vesturlandi. Samkomulagið hljóðar upp á 2,35 milljónir evra og var það gert að undangengnu útboðsferli þar sem NKT átti lægsta tilboðið. Það felur í sér framleiðslu og flutning jarðstrengjanna til Íslands ásamt eftirliti með lagningu þeirra, tengingu og prófunum. Strengirnir verða framleiddir í verksmiðju fyrirtækisins í Falun í Svíþjóð en Orkuvirki verður undirverktaki sænska fyrirtækisins á Íslandi.