Arctic Fish Holding, móðurfélag Arctic Fish ehf. á Íslandi, hefur lokið hlutafjárútboði sínu á hlutum fyrir um 600 milljónir norskra króna, eða um 9 milljarða íslenskra króna.

Í tilkynningu um lok útboðsins kemur fram að áskriftir hafi fengist fyrir rúmlega 9,8 milljónum hluta á verðinu 61,2 norskar krónur. Þá kemur fram að eftirspurn hafi verið mun meiri en framboð og að útboðið hafi vakið mikinn áhuga norskra og íslenskra auk fjárfesta annars staðar á Norðurlöndum og alþjóðlegra fagfjárfesta.

Nýtt hlutafé nam 350 milljónum norskra króna en Bremesco Holding Ltd. seldi hluti fyrir um 250 milljónir. Umsjónaraðilar útboðsins voru DNB Markets og Pareto Securities auk þess sem Arion banki starfaði með þeim að því að auka hlut íslenskra fjárfesta í félaginu.

Tveir núverandi hluthafar, Norway Royal Salmon (NRS) og Novo ehf., skráðu sig fyrir hlutum að andvirði samtals 245 milljónum norskra króna. Þar af skráði NRS sig fyrir hlutum að andvirði 200 milljóna norskra króna og er með því meirihlutaeigandi í félaginu. Novo skráði sig fyrir 45 milljónum norskra króna og fjármálastjóri félagsins, Neil Shiran Þórisson, skráði sig fyrir hlutum að andvirði 41 milljón norskra.

Í hópi annarra sem skráðu sig fyrir hlutum má nefna Birtu lífeyrissjóð sem skráði sig fyrir 28 milljónir norskra króna, Lífeyrissjóð Vestmannaeyja sem skráði sig fyrir 15 milljónir norskra króna og Vörð tryggingar sem skráði sig fyrir 4 milljónir norskra króna.

Viðskipti með hlutina munu að óbreyttu hefjast á föstudaginn næstkomandi, þann 19. febrúar, á Euronext Growth markaðnum í Osló.

Sjá einnig: Níu milljarða útboð Arctic Fish