Hagar, móðurfélag Bónuss, Hagkaups og Olís, skiluðu 926 milljóna króna hagnaði á fyrsta fjórðungi fjárhagsársins, sem nær frá mars til maí, en til samanburðar hagnaðist félagið um 727 milljónir á sama tímabili í fyrra.

„Bætta afkomu Haga á milli fjórðunga má að stórum hluta rekja til starfsemi Olís sem skilaði umtalsvert betri afkomu en í fyrra,“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga, í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Rekstrarniðurstöðu Olís megi rekja til hagræðingar í rekstri á síðustu misserum, breyttum áherslum í rekstri þjónustustöðva, fjölgun erlendra ferðamanna og mikið auknum umsvifum hjá stórnotendum, m.a. í útgerð og ferðaþjónustu.

Velta Haga-samstæðunnar jókst um 19,3% og nam 38,2 milljörðum. Framlegð í krónum talið jókst um um 10,4% milli ára og nam 7,6% milljörðum en framlegðarhlutfallið lækkar um 1,6% prósentustig „einkum vegna aukinnar sölu eldsneytis til stórnotenda og hækkunar á heimsmarkaðsverði“.

„Ögrandi tímar framundan í smásölu“

Tekjur vegna sölu á dagvöru í Bónus og Hagkaup jukust um tæp 6% á fjórðungnum. Fram kemur að seldum stykkjum fjölgaði lítillega en heimsóknum viðskiptavina töluvert. Þá hafi afkoma í dagvörusölu verið svipuð á milli ára.

„Tekjuaukningu má að hluta rekja til aukningar hjá Bónus og að hluta til hærra vöruverðs, en verð á aðföngum frá framleiðendum og birgjum hélt áfram að hækka á fjórðungnum,“ segir Finnur.

Sjá einnig: Útlit fyrir að aðfangaverð hækki áfram

Hann segir að eftirstöðvar Covid-faraldursins og stríðsátökin í Úkraínu hafi haft nokkur áhrif á reksturinn og skýri hækkanir aðfangaverðs, bæði í dagvöru og eldsneyti.

„Vegna hækkandi aðfangaverðs sem meðal annars hlýst af átökum í Úkraínu er ljóst að það eru ögrandi tímar framundan í smásölu. Sem fyrr verður okkar mikilvægasta viðfangsefni að tryggja framboð á nauðsynjum og gæta sérstaklega að hagkvæmni í allri okkar starfsemi, einkum til að vega upp á móti verðhækkunum á nauðsynjum sem nú gætir bæði hérlendis og erlendis.“