Hlutabréf ýmist hækkuðu eða lækkuðu í Asíu í dag. Í Japan hækkaði Nikkei 225 um 1,1% og náði hæsta gildi sínu í þrjár vikur. Væntingar um vaxtalækkun í Bandaríkjunum fara vaxandi, en auk þess hafði það jákvæð áhrif að jenið veiktist lítillega, að því er segir í Financial Times. Hang Seng vísitalan í Hong Kong hækkaði um 0,6% en úrvalsvísitalan í Shanghæ lækkaði hins vegar um 2,6%, samkvæmt upplýsingum frá DowJones. Vísitalan hefur farið lækkandi frá því hún náði hámarki um miðjan október, en seðlabanki Kína hefur hækkað vexti fimm sinnum á þessu ári og skattar á hlutabréfaviðskipti hafa verið hækkaðir.