Gengi hlutabréfa sveiflaðist nokkuð í talsverðri veltu í Kauphöllinni í dag. Úrvalsvísitalan lækkaði þegar yfir lauk.

Gengi hlutabréfa Eimskips lækkaði um 1,16% og Marel um 0,94%. Þá lækkaði gengi bréfa Icelandair Group um 0,71% og Haga um 0,61%.

Á móti hækkaði gengi bréfa fasteignafélagsins Regins um 1,8%. Gengi bréfa félagsins endaði í 13,03 krónum á hlut og hefur það aldrei verið hærra. Á sama tíma hækkaði gengi bréfa stoðtækjaframleiðandans Össurar um 0,24% í fremur litlum viðskiptum eða upp á 41 þúsund krónur.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,45% og endaði hún í 1.172,96 stigum. Heildarvelta í Kauphöllinni nam rúmum 1,1 milljarði króna. Mest voru viðskipti með hlutabréf Marel eða upp á 468 milljónir króna. Næstmesta veltan var með hlutabréf Icelandair Group eða upp á rétt rúmar 305 milljónir.