Úrvalsvísitala kauphallarinnar stóð nánast í stað í kauphöll Nasdaq Iceland í dag, en hækkun hennar nam einungis 0,05% og stóð hún í kjölfarið í 1.717,00 stigum.

Viðskipti dagsins voru jafnframt töluvert minni en síðustu daga, eða 1,37 milljarðar, miðað við 3,9 milljarða í gær. Lækkaði aðalvísitala skuldabréfa hins vegar um 0,06% í 8,1 milljarða viðskiptum og nemur hún nú 1.182,90 stigum.

Hagar og Reitir hækkuðu mest

Mesta hækkun meðal félaga Úrvalsvísitölunni var hjá Högum, eða um 1,33% í litlum viðskiptum, eða sem nema 90 milljónum króna. Fæst hvert bréf félagsins nú á 49,65 krónur.

Mest viðskipti voru með bréf í Reitum, 438 milljónir, en hækkaði það jafnframt næst mest, eða um 1,08%. Hvert bréf félagsins fæst nú á 84,60 krónur.

Össur, Síminn og Icelandair lækkuðu mest

Mest lækkun í kauphöllinni var með bréf í Össur, eða um 2,27% í mjög litlum viðskiptum, námu þau einungis 663 þúsund krónum. Fæst hvert bréf félagsins nú á 430,00 krónur.

Af þeim félögum sem eru í Úrvalsvísitölunni lækkuðu mest bréf í Símanum eða um 0,64% einnig í litlum viðskiptum eða sem námu 1,8 milljónum króna, og kostar hvert bréf félagsins nú 3,10 krónur.

Næst mestu viðskiptin og næst mesta lækkunin af bréfum í Úrvalsvísitölunni voru með bréf Icelandair, lækkuðu þau um 0,55% í 338 milljón króna viðskiptum. Fæst hvert bréf félagsins nú á 26,90 krónur.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,1% í dag í 1,4 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala GAMMA lækkaði um 0,1% í dag í 6,6 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 1,5 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,1% í 5,1 milljarða viðskiptum.