Aðalfundur Samerja hf. fór fram í gær en fundurinn bar keim af því að Samherji er nú á leið út af hlutabréfamarkaði. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja segir þó ekkert útilokað að félagið komi aftur inn á markað einhvern tíma í framtíðinni.

"Við ákváðum að fresta aðalfundi vegna þeirra eignabreytinga sem eru í fyrirtækinu og vinnunnar sem felst í því að taka félagið út af markaði. Við höfum hugsað okkur að halda framhaldsaðalfund innan tveggja mánaða. Það var því ekki kosin stjórn og annað sem að því lýtur," sagði Þorsetinn að loknum fundi í gær.

Samherji er afar sterkt sjávarútvegsfyrirtæki og námu rekstrartekjur samstæðunnar 16.760,0 milljónum króna á síðasta árinu samkvæmt rekstrarreikningi. Hagnaður varð á rekstri samstæðunnar að fjárhæð 2.914,4 milljónir króna.

Í kjölfar kaupa Fjárfestingafélagsins Fjarðar ehf. á 7,33% eignarhlut í Samherja hf. gerðu nokkrir af stærstu hluthöfum Samherja hf. með sér samkomulag undir lok mars um stjórnun og rekstur Samherja hf. Þetta voru Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson, Fjárfestingarfélagið Fjörður ehf., Bliki ehf., Tryggingamiðstöðin hf., F-15 sf.,Finnbogi A. Baldvinsson og fjárhagslega tengdir aðilar, sem samtals eiga 55,48% hlutafjár í félaginu. Vegna þess var aðilum samkomulagsins skylt að gera öðrum hluthöfum Samherja hf. yfirtökutilboð á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti. Yfirtökutilboðið miðast við gengið 12,1 sem er hæsta gengi hlutabréfa sem aðilar samkomulags þessa hafa átt viðskipti með í Samherja hf. síðastliðna sex mánuði. Fyrir aðalfundi lá tillaga stjórnar um greiðslu á 30% arði og samsvarar tilboðið því genginu 12,4. Samhliða áðurgreindu samkomulagi verða hlutabréf Samherja hf. afskráð úr Kauphöll Íslands.

Þorsteinn Már segir að þetta þýði vissulega breytingar fyrir félagið. Hann útilokar þó ekki innkomu að nýju á Hlutabréfmarkaðinn. -- "Það verður þá kannski í öðru formi. Það er ekkert útilokað og þá verður það trúlega meira tengt markaðs og sölumálum."