Íslenskt dótturfélag bandaríska ferðaþjónustufyrirtækisins Eleven Experience sem rekur Deplar Farm hótelið í Fljótunum á Norðurlandi hafa bætt við jarðarsafn sitt jörðinni Atlastöðum í Svarfaðardal að því er Morgunblaðið greinir frá.

Auk frétta af frekari uppkaupum bresks auðkýfings í Þistilfirði segir blaðið einnig frá því að evrópskur aðili hafi komið fram með tilboð í eyjuna Vigur í Ísafjarðardjúpi, en ásett verð hennar samkvæmt auglýsingu er 330 milljónir króna.

Haukur Bent Sigmarsson framkvæmdastjóri Fljótabakka segir kaupverðið vera trúnaðarmál, en jarðarkaupin koma til viðbótar við kaup þess á jörðinni Hraun í Fljótum og Nefsstöðum við Stífluvatn í fljótum síðastliðið haust.

Fyrir átti félagið jarðirnar Knappsstaði, Steinavelli og Stóru-Brekku í Fljótum, auk Deplu. Haukur segir engin áform um að kaupa fleiri jarðir, en hann segir talsvert um að jarðeigendur hafi samband og bjóði jarðir. „Það hefur verið sérstaklega mikið um það eftir að það fór að hægjast á ferðamannastraumnum,“ segir Haukur.

Eins og kom fram í fréttum í gær vill fyrrum formaður bændasamtakanna og þingmaður Sjálfstæðisflokksins að 300 ríkisjarðir verði seldar, fyrst og fremst ábúendum og þeim sem nýta jarðirnar í dag, en einnig að eyðijarðir verði seldar. Væntir hann að hægt verði að fá um 6 milljarða fyrir jarðirnar, sem komu í eigu ríkissins mikið til vegna annars vegar samnings við kirkjuna um að borga prestum laun og hins vegar vegna jarðaruppkaupa undir lok síðustu aldar.

Jafnframt sagði Rúv frá því í gær að breski auðkýfingurinn Jim Radcliffe, sem keypt hefur upp jarðir í Vopnafirði og Þistilfirði undanfarin ár, hafi bætt við sig jörðinni Brúarlandi 2 í Þistilfirði í gegnum Fjárfestingarfélagið Sólarsalir ehf.

Eins og áður segir er nú verið að ganga frá ýmsum formsatriðum og fyrirvörum í kauptilboði í eyjuna Vigur í Ísafjarðardjúpi, en þar hefur sama ættin búið og stundað búskap og í seinni tíð ferðaþjónustu kynslóðum saman, en um 10 þúsund manns koma árlega í eyjuna. Ekki liggur fyrir hvort eyjan verði áfram opin fyrir ferðamönnum af hálfu nýs eigenda, en einu upplýsingarnar sem liggja fyrir um viðkomandi er að hann búi í Evrópu.