Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga mátti útsvar að hámarki vera 14,48% á síðasta ári. Alls voru 65 sveitarfélög með hámarks útsvar sem þýðir að níu sveitarfélög nýttu sér ekki hámarkið heldur voru með lægra útsvar. Lægst var útsvarið í Skorradalshreppi og Ásahreppi eða 12,44%. Á höfuðborgarsvæðinu var útsvarið lægst í Garðabæ og á Seltjarnarnesi eða 13,66%.

Í Skagabyggð nemur álagt útsvar að meðaltali 287 þúsund krónum á hvern íbúa og er ekkert sveitarfélag með lægra meðaltal. Skýringarinnar er ekki að leita í lágri útsvarsprósentu því hún er í botni í Skagabyggð. Skýringin er líklega sú að tekjur séu almennt lágar í sveitarfélaginu. Íbúar í Vestmannaeyjum borga að meðaltali hæsta útsvarið eða 548 þúsund krónur á hvern íbúa og má gera ráð fyrir því að það sé vegna þess að laun séu almennt frekar há í þessum útgerðarbæ.

Um síðustu áramót var hámarkið hækkað í 14,52% og hefur meirihluti sveitarfélaga nýtt sér heimildina til að hækka útsvarið upp í þessa prósentutölu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .