*

laugardagur, 26. september 2020
Innlent 15. september 2020 15:41

Vænta framfara í rafhlöðum Tesla

Á einni viku hefur gengi bréfa Teslu hækkað um 35%, eftir þriðjungslækkun frá því fóru hæst. Eru nú 10% lægri en þá.

Ritstjórn
epa

Bréf rafbílaeigandans Tesla hafa farið hækkandi á ný í aðdraganda svokallaðs rafhlöðudags í næstu viku þar sem félagið kynnir nýjustu framfarir í grunntækninni sem bílaframleiðandinn byggir á. Gengi bréfa félagsins hefur hækkað um 6,52% það sem af er degi og eru bréf félagsins komin í 446,40 Bandaríkjadali þegar þetta er skrifað eftir hækkanir síðustu fimm daga.

Er það hækkun um 35% frá því að þó fóru lægst í 330,21 dali fyrir viku síðan, 8. september, eftir að áætluð uppskipting bréfanna í fjóra hluti tók gildi um mánaðamótin. Bréfin fóru hins vegar hæst í 498,32 dali 31. ágúst síðastliðinn, svo þau féllu næstu vikuna eftir það um 33,7% en gengið er nú 10,4% lægra en þegar verð bréfanna fór hæst.

Búist er við að Elon Musk muni kynna nýjustu framfarirnar í rafhlöðutækni félagsins eftir viku, 22. september, en Reuters hefur eftir Keith Temperton miðlara hjá Forte Securities að væntingarnar séu að knýja verðið upp á ný.

„Rafhlöðutæknin er úrslitaatriðið í því sem gerist hjá Tesla. Án hennar er fyrirtækið bara enn einn bílaframleiðandinn. Ef tæknin verður byltingarkennd, þá munu bréf félagsins hækka á ný,“ segir Temperton.

Þó skiptar skoðanir séu um framtíð félagsins virðist meðalviðhorfið vera að halda eigi í fjárfestingar í félaginu þó miðgildi verðviðmiðanna séu 140 dölum undir núverandi gildi.