*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Innlent 11. febrúar 2021 10:20

Vandræðaeignir kosta Arion 4,3 milljarða

Mikill taprekstur Valitor, United Silicon og Travelco sem, Arion banki er með sölu heldur áfram.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Þrjú félög sem Arion banki hefur auglýst til sölu töpuðu 4,8 milljörðum króna á síðasta ári sem rýrði afkomu bankans um 4,3 milljarða króna. Afkoma bankans í heild batnaði þó til muna á milli ára, úr 1,1 milljarðs króna hagnaði árið 2019 í 12,5 milljarða króna árið 2020.

Félögin þrjú, Valitor, Stakksberg og Sólbjarg, draga afkomuna áfram niður. Tap þeirra þriggja hefur þó minnkað milli ára en samanlagt tap þeirra árið 2019 rýrði afkomu Arion um 13 milljarða króna. 

Söluferli Valitor seinkar enn

Kortafyrirtækið Valitor sem bankinn hefur verið með í söluferli frá árinu 2018, tapaði 1,8 milljörðum króna á síðasta ári miðað við nærri tíu milljarða tap árið 2019. Í uppgjöri bankans kemur að félagið hafi ráðist í umfangsmikla endurskipulagningu og hagræðingaraðgerðir auk þess sem starfsemi félagsins í Danmörku var seld sem og hluti starfseminnar á Bretlandi. Arion segir ýmsa áhugasama um kaupa á Valitor en söluferlið hafi tekið lengri tíma en búist var við, meðal annars vegna kórónuveirufaraldursins. Arion banki jók hlutafé Valitor um 3,5 milljarða króna í fyrra en á árinu 2019 féll virði Valitor úr 16 milljörðum í ársbyrjun 2019 í 5,5 milljarða króna í lok mars 2020. Í árslok 2020 var bókfært virði Valitor 8,5 milljarðar króna. Þá var skipt um forstjóra á árinu, Herdís Fjeldsted tók við af Viðari Þorkelsson.

Stakksberg sem heldur utan um kísilver United Silicon tapaði 1,4 milljörðum króna á árinu vegna lækkunar á mati á virði verksmiðjunnar, sem bankinn metur nú á 1,6 milljarða króna. Bankinn tók verksmiðjuna yfir árið 2018 og hefur síðan þá reynt að laga verksmiðjuna og afla starfsleyfa til að endurræsa hana og svo selja, en það hefur ekki enn gengið eftir. „Stakksberg er á lokastigi vinnu við gerð nýs umhverfismats fyrir verksmiðjuna,“ segir í ársreikningnum.

Arion verði hluthafi í FÍ

Þá tapaði Sólbjarg ehf., sem tók yfir ferðaskrifstofur Travelco, áður Primera, 1,6 milljörðum í fyrra og er félagið metið á um 700 milljónir króna. „Unnið hefur verið að endurskipulagningu rekstrarins á árinu en ferðaþjónustuiðnaðurinn hefur beðið mikla hnekki vegna heimsfaraldursins. Í tengslum við endurskipulagninguna hafa verið seldar einingar út úr rekstrinum, bæði hér heima og erlendis,“ segir í ársreikningi Arion banka. 

Skandinavískar ferðaskrifstofurnar í eigu Sólbjargs voru lýstar gjaldþrota seint á árinu 2020. Þá seldi Arion banki Heimsferðir til Ferðaskrifstofu Íslands í desember síðastliðnum og er Samkeppniseftirlitið með málið til meðferðar. Gangi kaupin eftir verður Arion banki minnihlutaeigandi í Ferðaskrifstofu Íslands.