Miklar stýrivaxtalækkanir og fleiri aðgerðir Seðlabankans hafa skilað sér misvel út í lánakjör fyrirtækja. Vextir útistandandi lána hafa lækkað talsvert meira en nýrra, og vísbendingar eru um að þær skili sér betur til stærri fyrirtækja en þeirra minni. Vextir til lengri tíma hafa auk þess lækkað mun minna en skammtímavextir.

Staðan á markaðnum er að mörgu leyti flókin þessa dagana. Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Júpíter, rekstrarfélagi verðbréfasjóða, segir að aðgerðarleysi og skortur á nánari útfærslu nú níu dögum síðar eftir að Seðlabankinn tilkynnti um fyrirætlanir sínar að kaupa ríkisbréf, hafi orðið til þess að áhrifin á millilanga og lengri vexti séu að mestu leyti gengin til baka, og í sumum tilfellum hafi krafan hreinlega hækkað.

Raunstýrivextir við núllið
„Að einhverju leyti myndaðist hræðsla á markaðnum um daginn þegar markaðsaðilar áttuðu sig á því að það stefndi í gríðarlegan fjárlagahalla.

Þótt Seðlabankinn hafi lækkað vexti um heilt prósentustig og tali frekar kröftuglega, þá held ég að það sé enn smá vantrú hjá markaðnum á að bankinn muni fara með raunvexti vel undir núllið, eins og aðrir seðlabankar, sem eru flestir með raunstýrivexti neikvæða um 1-2%.“

„Menn eru að horfa í miklu svartari tölur“
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur talað nokkuð afdráttarlaust um vilja og getu Seðlabankans til að halda vöxtum lágum í fyrirsjáanlegri framtíð, en Agnar segir þó markaðinn hafa verið örlítið hissa á því sem margir hafa kallað óhóflega bjartsýnar hagvaxtarspár bankans, sem birtar voru um daginn. „Þær eru svo augljóslega rangar, enda byggðar á úreltum sviðsmyndum.

Menn eru að horfa í miklu svartari tölur. Skuldabréfamarkaðurinn horfir á þessar spár og spyr sig: af hverju er Seðlabankinn svona bjartsýnn? Eru þeir þá ekki að fara að lækka vexti jafn mikið og þeir hafa talað um?“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .