Varnarmálastofnun keypti símkerfi af Svar tækni ehf. í desember 2008 fyrir 16 milljónir króna. Fjallað er um málið í úttekt Ríkisendurskoðunar en forstjóri Varnarmálastofnunar, Ellisif Tinna Víðisdóttir er mágkona framkvæmdastjóra Svar tækni.

Kaupin fóru fram án undangengis útboðs en stofnunin taldi að kaupin hefðu verið undanskilin útboðsskyldu á grundvelli laga um opinber innkaup sem snúa að öryggisráðstöfunum. Ellisif Tinna heldur því þó fram að hún hafi vitað af vanhæfi sínu til að koma að kaupunum og því ekki tekið þátt í þeim.

Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar voru í upphafi fjögur kerfi til skoðunar. Þá var tekin ákvörðun um að kaupa nýtt og ónotað kerfi og komu því aðeins tvö kerfi til greina, annars vegar Cisco kerfi frá Sensa ehf. og hins vegar Swynx kerfi frá Svar tækni ehf.

Niðurstaðan var upphaflega sú að velja Cisco kerfið frá Sensa „enda væri það ódýrara, öruggara og sveigjanlegra“ en Swynx kerfið frá Svar tækni eins og það er orðað í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Hins vegar hafi komið upp misskilningur um heimildir Varnarmálastofnunar til að setja eldra símkerfi upp í hið nýja sem gerði það að verkum að kerfið varð 1,8 milljón kr. hærra en gert hafði verið ráð fyrir. Því var ákveðið að kaupa kerfið frá Svar tækni en þar var jafnframt ódýrara í viðhaldi.

Eðlilegast hefði verið að efna til útboðs

Ríkisendurskoðun heldur því hins vegar fram að Varnarmálastofnun hafi verið skylt að efna til útboðs vegna kaupanna. Þannig bendir Ríkisendurskoðun á að hvorugt þeirra fyrirtækja sem rætt hafði verið við hafi hlotið sérstak öryggisvottun og þar með viðurkenni Varnarmálastofnun sjálfkrafa að ekki hafi verið um að ræða þá ríku öryggishagsmuni sem stofnunin vísar til við ákvörðun um að víkja frá lögum um opinber innkaup.

„Ekki verður séð að fyrirtækin sem óskað var eftir tilboðum frá hafi staðist ríkari kröfur en önnur sambærileg fyrirtæki í landinu,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar og tekið er fram að enn eigi eftir að svara af hverju aðeins var leitað til þessara tveggja fyrirtækja sem fjallað er um hér að ofan.

Rök Varnarmálastofnunar eru hins vegar þau að stofnunin sé ekki borgaraleg stofnun (eins og t.d. Landhelgisgæslan) heldur hernaðarleg í eðli sínu. Þannig fylgi hún öryggisstöðlum Atlantshafsbandalagsins (NATO) og ekki sé hægt að líkja starfsemi stofnunarinnar við starfsemi annarra ríkisstofnana. Hún sinni verkefnum sem áður hafi alfarið verið sinnt af erlendum herafla í umboði íslenskra stjórnvalda.

Ríkisendurskoðun telur að þrátt fyrir þau rök vanti formfast verklag sem taki við þegar lög um opinber innkaup séu látin víkja. Þegar leitast var eftir því var til að mynda ekki hægt að nálgast tilboðsbeiðnir stofnunarinnar til umræddra fyrirtækja auk þess sem enn vanti rökstuðning fyrir því af hverju aðeins hafi verið leitað til þessara tveggja fyrirtækja.

Sagði sig aldrei formlega frá málinu

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stofnunin dragi ekki í efa að Ellisif Tinna hafi sagt sig frá málinu vegna vanhæfis „en þar sem sú afgreiðsla var hvorki skjalfest hjá stofnuninni né var utanríkisráðuneytið látið vita fyrir kaupin liggur hvorki fyrir með hvaða óyggjandi hætti hvenær og hvernig forstjórinn sagði sig frá málinu né hver tók við tilkynningu þar um,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Þá er bent á það í skýrslunni að eftir að hafa farið yfir verðlistana frá Sensa og Svar tækni hafi Ríkisendurskoðunar komið niðurstöðu sinni formlega á framfæri við forstjóra Varnarmálastofnunar, Ellisif Tinnu, en ekki fjármálastjóra sem átti þá að hafa verið tekinn við málinu.