Meirihluti vaxtaákvörðunarnefndar Englandsbanka kaus að halda stýrivöxtum þar í landi óbreyttum í 5% á fundi sínum í júlí. Einn meðlimur nefndarinnar kaus stýrivaxtalækkun og annar kaus stýrivaxtahækkun.

Þessi niðurstaða enduruspeglar þá togstreitu sem vaxtaákvörðunarnefndin glímir nú við milli þess hvort mikilvægara sé að koma í veg fyrir samdrátt í hagkerfinu eða verðbólgu.

Það var Timothy Besley sem vildi hækka stýrivexti í 5,25% á meðan David Blanchflower vildi lækka þá niður í 4,75%. Eins og fjallað hefur verið um hefur Blanchflower um nokkurt skeið talað fyrir vaxtalækkun.

Í rökstuðningi Englandsbanka fyrir ákvörðuninni segir að hún hafi verið erfið. Hægst hafi á efnahagskerfinu á meðan verðbólga í júní hafi verið meiri en spáð hafði verið. Breyting á stýrivöxtum var þó ekki talin æskileg þar sem hún hefði verið óvænt og fjármálamarkaðir eru viðkvæmir þessa stundina.