Blaðamaður Viðskiptablaðsins reynsluók í dag nýjustu tegundinni af Range Rover jeppanum. Nýjasta línan inniheldur heilsteypta grind úr áli sem gerir burðarvirki bílsins um 420 kílóum léttari en burðarvirkið í eldri gerðinni.

Nýr Ranger Rover með 6 strokka TDV6 vélinni er ekki nema 7,9 sekúntur í hundraðið sem er sama hröðun og eldri gerðin hafði með 8 strokka dísilvélinni. Sex strokka vélin er mun sparneytnari en forverar hennar og með fyrrnefndu léttara burðarvirki áætla framleiðendur bílsins að hann eyði um 8% minna af eldsneyti en forveri sinn. Það er þó hægt að velja um mismundandi vélar og sú stærsta er um 510 hestöfl.

Bíllinn kemur með fjölmörgum skemmtilegum eiginleikum. Hann inniheldur m.a. innbyggðan 360° myndavélarbúnað sem gefur ökumanninum góða yfirsýn yfir það sem er að gerast í kringum hann. Þegar þú ert að keyra í venjulegri borgarumferð kemur lítið ljós í speglana ef það er bíll nálægt þér, á svokölluðu blind spot svæði. Menn mega þó ekki alveg gleyma sér í tækninni, þetta er ekki flugvél þannig að þú getur ekki treyst eingöngu á tækin og hunsað umhverfið.

En allt kostar þetta sitt og nýr Range Rover kostar hjá B&L um 26 – 29 milljónir króna, eða svipuð og meðalstór íbúð í Reykjavík.