Birgir Þórarinsson, betur þekktur sem Biggi veira og er kenndur við hljómsveitina Gusgus, hefur stofnað fyrirtækið Oroom ehf., meðal annars í þeim tilgangi að halda utan um framleiðslu hljómsveitarinnar. „Þetta er í rauninni utan um þá framleiðslu sem ég kem nálægt og þar er sumt vegna rekstrarbreytinga á ýmsu sem viðkemur hljómsveitinni Gusgus,“ segir Biggi í samtali við Viðskiptablaðið.

Hljómsveitin starfrækir sitt eigið hljóðver í Reykjavík og segir Biggi að útgáfusamningur hennar gagnvart útgefendum í Þýskalandi sé með þeim hætti að hún sjái sjálf um alla framleiðslu og því sé nauðsynlegt að vera með útgáfufélag hér heima. „Við framseljum útgáfuréttinn til Þýskalands, en svo eigum við eftir að taka upp í alls konar kostnað okkar megin sem felst meðal annars í framleiðslu á myndböndum og tónlist. Fyrirtækið er stofnað til þess að hafa alla þessa hluti í lagi.“

Hljómsveitin stór í Austur-Evrópu

Gusgus hóf nýlega vinnu við útgáfu á nýrri plötu sem áætlað er að komi út á næsta ári. Hljómsveitin hefur verið dugleg að sinna aðdáendum sínum erlendis að undanförnu og eru vinsældirnar mestar í Austur-Evrópu.

„Þar höfum við verið að halda okkar stærstu tónleika þar sem við erum að halda partí fyrir 1.000-3.000 manns. Það er dálítið erfiðara að komast inn í þessi grónu tónlistarsvæði, eins og Bretland og Bandaríkin, sem eru náttúrlega dálítið upptekin af sinni eigin tónlist. Þetta er eins og með önnur íslensk fyrirtæki sem eru í útrás, það er ekkert fyrsta stopp í Kaupmannahöfn lengur,“ segir Biggi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .