Verð sjávarafurða lækkaði lítillega í desember, eða um 0,9% mælt í erlendri mynt (SDR) eftir að hafa hækkað í sjö mánuði í röð, segir greiningardeild Glitnis.

?Þrátt fyrir lækkunina er afurðaverðið nálægt sögulegu hámarki og hefur hækkað um 11% síðustu tólf mánuði. Í íslenskum krónum hækkaði afurðaverð í desember um 0,5% frá mánuðinum á undan vegna lækkunar gengis krónunnar. Síðastliðna tólf mánuði hefur afurðaverðið hækkað um 28% mælt í íslenskum krónum,? segir greiningardeildin.

Hún segir að verð á mjöli hafi lækkað um tæpt 1% (í SDR) í desember en er samt sem áður sögulega hátt. Mjölverðið í desember var 75% hærra en í desember í fyrra.

?Helstu ástæður fyrir háu mjölverði eru minni uppsjávarfiskkvóti í löndum S-Ameríku, mikil eftirspurn frá fiskeldi í Kína og stöðug eftirspurn frá laxeldisfyrirtækjum. Af öðrum afurðaflokkum lækkaði verð á sjófrystum botnfiskafurðum um 2% í desember. Landfrystar botnfiskafurðir hækkuðu hins vegar lítillega í verði,? segir greiningardeildin.

Hún segir að hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefi vænkast undanfarna mánuði með lækkun gengis krónunnar og hækkun á afurðaverði.

Nú hefur krónan reyndar hækkað undanfarnar vikur og afurðaverðið lækkað lítillega. Þrátt fyrir það má segja að ytri aðstæður séu enn hagfelldar fyrir sjávarútvegsfyrirtækin. Horfur fyrir yfirstandandi ár eru góðar, sterk spurn er eftir afurðum á erlendum mörkuðum og gengisspár gera ráð fyrir nokkru veikari krónu en nú er. Loðnuvertíðin sem nú er hafin mun þó ráða miklu um það hvernig mörgum fyrirtækjum mun vegna en óljóst er hvort bætt verður við upphafskvótann,? segir greiningardeildin.