Verulegar skammtímastöður erlenda aðila í krónunni ásamt líkum á einhverjum flótta innlendra aðila úr myntinni mun að mati Greiningar Glitnis eflaust leiða til þess að hömlunum verður haldið um sinn á meðan traust efnahagsstefnunnar er byggt upp á ný og varnir gegn slíku fjármagnsútflæði, m.a. í formi sterkari gjaldeyrisforða, hafa verið byggðar upp.

Greining Glitnir fjallar um þetta í Morgunkorni sínu og telur að þetta ástand muni eflaust taka nokkurn tíma.

„Hugsanlegt er að reynt verði að draga úr áhættu af stórum stöðum erlendra aðila í krónunni áður en að fullkomnu floti kemur, t.d. með sérstökum gjaldeyrisuppboðum fyrir þá aðila. Stefna stjórnvalda og Seðlabankans sem sett er í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er að treysta stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og stuðla að styrkingu krónunnar," segir í Morgunkorni Glitnis.