Ara Kristins Jónssonar fer um víðan völl í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið. Ferill hans er í senn glæsilegur og um margt ólíkur því sem Íslendingar eiga að venjast. Hann lauk doktorsnámi frá Stanford háskóla árið 1997 og hóf í framhaldinu störf hjá NASA, Geimferðastofnun Bandaríkjanna. Hann starfar í dag sem rektor Háskólans í Reykjavík þar sem hann berst m.a. fyrir bættu starfsumhverfi íslenskra háskóla og nýsköpunarfyrirtækja.

Hver er þín sýn á nýsköpunarumhverfið á Íslandi? Stöndum við framarlega eða aftarlega?

„Hvort tveggja. Staðreyndin er sú að  Ísland hefur gríðarleg tækifæri til að vera öflugt nýsköpunarland. Við erum með mjög hugmyndaríkt fólk og við erum mjög vinnufús. Við erum til í að ráðast í verkefni sem flestir aðrir myndu segja að væru ómöguleg og láta hlutina ganga upp og klárast. Þetta reddast allt saman! Þetta eru mjög góðar undirstöður fyrir nýsköpun. Það sem vantar en hefur verið að þróast og á eftir að þróast ennþá betur er fjármögnunarumhverfið.

Fyrir lítil fyrirtæki skiptir svo öllu máli að umgjörðin sé eins einföld og hægt er, að það sé eins lítil skriffinnska í kringum hlutina og hægt er og að við séum eins sveigjanleg og hægt er. Loks þarf að breyta viðhorfi á Íslandi á þann veg að það sé eðlilegur hluti í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi að hlutir gangi ekki upp. Það er hluti af því hvernig þetta virkar. Ekki öll fyrirtæki sem eru stofnuð verða frábær og skila hagnaði alla sína tíð. Sumt gengur bara ekki upp. Kannski var fyrirtækið ekki á markaði á réttum tíma, kannski hitti það ekki rétt á markaðinn. Þá er bara að læra af því og halda svo áfram og reyna aftur. Það sem við þurfum að gera hér á Íslandi er að búa til umhverfi þar sem frumkvöðlum er fyrirgefið ef hlutirnir ganga ekki upp í fyrstu atrennu. Ég vil sjá umhverfi eins og er í Bandaríkjunum og þá sérstaklega í Kísildalnum en þar er það þannig að þó að einhverjum takist ekki eitthvað í fyrstu atrennu þá þýðir það ekki að viðkomandi sé útskúfaður.

Þeir eru búnir að læra heilmikið og geta gert miklu miklu betur næst – hafa fengið gríðarlega mikilvæga reynslu og eru fyrir vikið ennþá betri til að takast á við svona áskoranir. Við þurfum að losna úr því viðhorfi á Íslandi að ef fólki mistekst þá er það svolítið dæmt eins og asnar og klaufar. Við það bætist svo að ef vel tekst til þá það stundum litið hornauga og talað neikvætt um það að góður árangur sé af verkefninu. Við verðum að leyfa hvort tveggja ef nýsköpun á að blómstra á Íslandi, bæði mistök og velgengni.“

Viðhorf Íslendinga til viðskiptalífsins undarlegt

Nú hafa fyrri viðmælendur Viðskiptablaðsins kvartað undan slæmu viðhorfi Íslendinga til atvinnulífsins, tekur þú undir það?

„Það verður að segjast alveg eins og er að viðhorf Íslendinga til atvinnulífsins er mjög skrítið eins og það birtist í skoðanakönnunum og umræðum. Mér finnst merkilegt þegar fólk talar um atvinnulífið eins og eitthvað sem er utan samfélagsins. Þetta er gríðarlega stór hluti af samfélaginu. Um 200.000 manns á Íslandi hafa atvinnu af einu og öðru og það að líta þetta allt saman einhverju hornauga er mjög skrítin afstaða. Ég tel samt sem áður að þetta muni jafna sig. En til að svo verði þurfum við að vinna að því á báða vegu, bæði atvinnulífsmegin frá og síðan hvernig við öll tölum um hlutina. Þannig ættum við að geta fengið eðlilegra viðhorf í samfélaginu.“

Viðtalið við Ara má nálgast í fullri lengd í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð.