VeriSign, stærsti rekstraraðili Internetsins, hefur valið EJS sem sinn helsta samstarfsaðila hérlendis við þjónustu á Öryggisumsjón VeriSign. Á ensku nefnist þjónustan “VeriSign Enterprise Security Services” og felst í þjónustu á sviði öryggismála, eftirlits og prófunar á búnaði og kerfum. Fyrirtæki sem starfa í fjármálageiranum eða stunda viðkvæm netviðskipti ættu að sjá sér mikinn hag í Öryggisumsjón VeriSign. Þau þurfa að standast alþjóðlegar kröfur um eftirlit og áreiðanleika, og öryggi í upplýsingakerfum er lykilatriði í þeirra rekstri.

Í tilkynningunni er haft eftir Bjarni Þór Sigurðsson, sölu- og markaðsstjóri EJS. “Upplýsingatæknin verður sífellt mikilvægari í samkeppnisrekstri, en á sama tíma verður áhættan meiri og kerfin flóknari og sérhæfðari. Æ fleiri fyrirtæki sjá hag í því að fá sérhæfða til að sjá um öryggi, eftirlit og prófanir á upplýsingakerfum. Við skoðun komast menn nefnilega að því að með svipuðum kostnaði fæst meira öryggi, öflugri varnir, hnökraminni rekstur og síðast en ekki síst, góður nætursvefn. Úthýsing á svona umsjón getur minnkað fjárfestingar og veitt fyrirtækjum festu í rekstraráætlunum en sömuleiðis mikinn sveigjanleika í rekstri. Það er mikill kostur í sveiflukenndu rekstrarumhverfi.”

Fyrirtækið VeriSign er meðal annars einn stærsti rekstrar- og þjónustuaðili Internetsins og ber ábyrgð á um 70% af umferð á netinu, með því að hýsa vinsæl rótarlén á borð við .COM. Í níu ár hefur VeriSign rekið kerfið án stöðvunar (100% uppitími) sem er ótrúlegur árangur. VeriSign hefur einnig þróað öflugar öryggislausnir í viðskiptum á netinu. Í krafti reynslu og þekkingar hefur VeriSign nú þróað lausn sem nefnd er Öryggisumsjón VeriSign. EJS er fyrsta fyrirtækið sem VeriSign gengur til samstarfs við um þessa þjónustu á evrópska markaðssvæðinu (EMEA). Fulltrúar VeriSign voru hér á landi á dögunum og undirrituðu þá samstarfssamning við EJS.

Simon Church, aðstoðarforstjóri VeriSign:

“Mikil þekking og reynsla liggur að baki Öryggisumsjón VeriSign, en það þarf líka mikla reynslu og þekkingu í að veita þjónustuna. Við völdum Ísland vegna þess að íslenski upplýsingatæknimarkaðurinn stendur framar en almennt í Evrópu. Við völdum EJS vegna þess að þar fundum við djúpa þekkingu á þessu sviði og mikla reynslu sem við getum treyst til að sinna Öryggisumsjón VeriSign,” segir Simon Church, aðstoðarforstjóri VeriSign, í tilkynningunni.