Áhrif verkfalla og kostnaðarauki vegna kjarasamninga mun hafa neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu fyrsta ársfjórðungs Haga sem lauk í lok maímánaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar .

„Verkfallsaðgerðir undanfarnar vikur, sem sumar hverjar standa enn, hafa haft neikvæð áhrif á rekstur Haga. Vöruskortur á mikilvægum vöruflokkum, eins og kjúklingi, svínakjöti, nautakjöti og fleirum, hefur haft nokkur áhrif á rekstur félagsins á tímabilinu,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að gera megi ráð fyrir að hagnaður fyrsta ársfjórðungs verði um 15% lægri en á síðasta ári. Enn ríki óvissa á vinnumarkaði þó svo að samningar hafi tekist við meginþorra starfsmanna Haga. Kostnaðarmat Samtaka atvinnulífsins á þeim kjarasamningi, sem m.a. snúi að starfsfólki Haga, sé 7,3% árið 2015, 5,7% árið 2016, 3,6% árið 2017 og 2,3% árið 2018. Kostnaðarmatið byggi á meðaltalshækkun, en kostnaðarauki Haga verði umfram framangreint meðaltal.

„Það er von félagsins að fljótlega takist að ljúka öllum samningum á vinnumarkaði, þannig að framangreind neikvæð áhrif séu til skamms tíma,“ segir í tilkynningunni.