Kristín Jóhannsdóttir, ferðamálafulltrúi Vestmannaeyjabæjar, segir mjög miklar væntingar bornar til nýju Landeyjahafnarinnar sem nú er verið að gera við Bakka.

„Við gerum okkur vonir um að hún verði klár á réttum tíma 1. júlí á næsta ári. Þá breytist allt samfélagið hér, ferðaþjónustan og svo má lengi telja. Við verðum þá komin beint inn á hringveginn. Þá verða mun tíðari ferðir milli lands og eyja þar sem siglingin tekur ekki nema 25 mínútur í stað tæplega þriggja tíma til Þorlákshafnar. Þetta verður allt annað líf."

Kristín segir að til að byrja með verði notast við núverandi Herjólf, en hætt var við útboð á smíði og rekstri nýrrar ferju í fyrra, þar sem tilboð þóttu ekki ásættanleg. Í staðin verður fyrirhuguð siglingarrenna inn að nýju Landeyjahöfninni höfð dýpri en fyrirhugað var til að Herjólfur geti athafnað sig þar.

Bjartsýni ríkir varðandi ferðamannastraum til Vestmannaeyja í sumar. Þá er sveitarfélagið stöðugt að bæta aðstöðu fyrir ferðamenn og segir Kristín að nú sé unnið að stórendurbótum á sundlauginni. „Við vonum að þegar líður á sumarið opnum við hér flottasta sundlaugargarð á landinu," segir Kristín Jóhannsdóttir.