*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 22. september 2019 16:05

Vextir og greiðslubyrði muni hækka

Verði verðtryggð lán bundin vísitölu neysluverðs án húsænðisliðar verða vextir og greiðslubyrði hærri, og sveiflur meiri.

Júlíus Þór Halldórsson
Á því tímabili sem leiðréttingin svokallaða tók til hækkaði vísitala neysluverðs um 8,2 prósentustig umfram vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar, eða um nærri þriðjungi meira.
vb.is

Eignamyndun fasteignalána verður hraðari og heildarvaxtabyrði lægri, en vextir og greiðslubyrði á móti hærri, verði frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um að tengja ný verðtryggð lán vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar að veruleika. Frumvarpið er liður í skuldbindingum stjórnvalda vegna hinna svokölluðu lífskjarasamninga sem undirritaðir voru síðasta vor.

Líklegt er að þegar upp er staðið greiði lántakendur minna fyrir lán sem verðtryggð eru með VNVÁH, en fyrir lán verðtryggð með vísitölu neysluverðs á sömu kjörum. Lánveitendur þyrftu því hærri vexti, geri þeir sömu kröfu um ávöxtun og áður, en hærri vöxtum fylgir hærri greiðslubyrði. Á þetta bendir Landsbankinn meðal annars í umsögn sinni um frumvarpið. Á móti yrði þó heildarvaxtabyrði yfir líftíma lánsins lægri, og eignamyndun á fyrri hluta lánstímans hraðari.

Haft er eftir Yngva Erni Kristinssyni, hagfræðingi Samtaka fjármálafyrirtækja, í Fréttablaðinu nýlega að vísitölubreytingin myndi kljúfa hinn verðtryggða skuldabréfamarkað í tvennt, grynnka hann, og veikja þannig verðmyndun. Líkleg áhrif þess séu hærri vextir. Þá bendir Landsbankinn á að misvægi geti skapast milli fjármögnunar og lánveitinga útlánastofnana. Skuldbindingar lífeyrissjóðanna séu sem dæmi tengdar VNV.

Auknar sveiflur á verstu tímum
Almennt hefur fasteignaverð sterka tilhneigingu til þess að gefa eftir í niðursveiflum, en hækka duglega í uppsveiflum, og húsnæðisliðurinn hefur því sveiflujafnandi áhrif á höfuðstól verðtryggðra lána. Samtök atvinnulífsins benda auk þess á að sterk neikvæð fylgni er milli húsnæðisverðs og innfluttrar verðbólgu vegna gengisfalls, sem eiga það þannig til að jafna hvort annað út. Eins og sjá má á grafinu hér að ofan kom húsnæðisliðurinn sem dæmi til móts við mikla innflutta verðbólgu í kjölfar hrunsins.

Þótt flest bendi til mjúkrar lendingar í þeirri hagkólnun sem nú stendur yfir, eru ekki horfur á mikilli hækkun fasteignaverðs næstu árin, og sumir spá jafnvel lækkunum, eins og Hagsmunasamtök heimilanna benda á. Þá má ekki gleyma því að virði eignarinnar sem á móti láninu stendur þróast nær alfarið í takt við almennt fasteignaverð. Eigið fé lántaka verður því sveiflukenndara með aftengingu húsnæðisliðarins.

Lokað var fyrir umsagnir þann 2. september síðastliðinn, en alls bárust 17 umsagnir. Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra verður frumvarpið lagt fyrir Alþingi til afgreiðslu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Verðtrygging