*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 2. september 2020 09:50

VG bætir við sig á ný

Vinstri græn fær 2,3 prósentustigum meira en í síðasta þjóðarpúlsi Gallup. Stjórnarflokkarnir með 43% stuðning en ríkisstjórnin 56%.

Ritstjórn
Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna en bakvið hana eru þeir Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknaflokksins, en saman leiða þau ríkisstjórn flokkanna.
Haraldur Guðjónsson

 

Helsta breytingin á fylgi flokka ef kosið yrði til Alþingis nú samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup frá fyrri könnun er að Vinstri græn bæta við sig fylgi, eða rétt rúmlega 2 prósentustigum, eftir að hafa dalað nokkuð í síðustu mælingu.

Þá mældist flokkurinn með 10,9% fylgi en í kosningunum 2017 fékk hann 16,9% stuðning. Tæplega 13% segjast myndu kjósa flokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag. Litlar breytingar eru á fylgi annarra flokka eða á bilinu 0,1-0,8 prósentustig.

Nær 23% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, næstum 15% Samfylkinguna, hartnær 14% Pírata, tæplega 11% Viðreisn, um 10% Miðflokkinn, nánast 8% Framsóknarflokkinn, nálega 4% Sósíalistaflokkinn og tæplega 4% Flokk fólksins.

Tæplega 11% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og 11% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa.
Slétt 56% þeirra sem taka afstöðu segjast styðja ríkisstjórnina.

Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 4. til 31. ágúst 2020. Heildarúrtaksstærð var 9.479 og þátttökuhlutfall var 51,9%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,6-1,3%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Helstu niðurstöður:

 • Sjálfstæðisflokkurinn: nú 22,8% - í ágúst 23,2%
 • Samfylkingin: nú 14,7% - í ágúst 14,8% 
 • Píratar: nú 13,7% - í ágúst 13,9%
 • Vinstri græn: nú 12,6% - í ágúst 10,9% 
 • Viðreisn: nú 10,6% - í ágúst 10,8% 
 • Miðflokkurinn: nú 9,9% - í ágúst 10,6%
 • Framsóknarflokkurinn: nú 7,9% - í ágúst 7,6% 
 • Sósíalistaflokkur Íslands: nú 3,9% - í ágúst 3,8% 
 • Flokkur fólksins: nú 3,6% - í ágúst 4,3%
 • Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna B+D+V: nú 43,3% - í ágúst 41,7% 
 • Styðja ríkisstjórnina: nú 56,0% - í ágúst 55,4%