Töluvert hefur dregið úr viðskiptaafgangi við útlönd það sem af er ári. Ástæðan er fyrst og fremst sú að litlar breytingar hafa orðið á hreinum tekjum vegna ferðalaga milli landa, á sama tíma og vöruskiptahalli hefur aukist verulega vegna mikils innflutningsvaxtar og lítils háttar samdráttar í útflutningi að því er kemur fram í nýrri greiningu Íslandsbanka.

Erlend staða þjóðarbúsins heldur þó áfram að batna, og hefur ekki verið betri í a.m.k hálfa öld samkvæmt greiningunni. Erlendar eignir umfram skuldir reyndust 108 ma.kr., eða sem samsvarar 4,4% af áætlaðri VLF, í lok september síðastliðins. Hreina erlenda staðan batnaði um 125 ma.kr. á 3. ársfjórðungi , en síðustu tölur Seðlabankans höfðu gefið til kynna lítillega neikvæða hreina erlenda stöðu um mitt ár.

Viðskiptaafgangur við útlönd var ríflega 68 ma.kr. á 3. fjórðungi ársins samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans. Í greiningunni segir að þrátt fyrir myndarlegan afgang var hann um þriðjungi minni í krónum talið en á sama tíma í fyrra. Afganginn megi fyrst og fremst þakka miklum tekjum af ferðaþjónustu, sem leitt hafa til myndarlegs afgangs af þjónustuviðskiptum undanfarin ár. Þegar lá fyrir að þjónustuviðskipti skiluðu nærri 118 ma.kr. afgangi á fjórðungnum, en ríflega 47 ma.kr. halli var á vöruskiptum. Aðrir undirliðir breyttu myndinni ekki verulega.

Þá segir að viðskiptaafgangur hafi verið ríflega 91 ma.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins. Til samanburðar var afgangurinn rúmlega 147 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Líkt og á 3. fjórðungi endurspeglar þessi þróun litlar breytingar á þjónustuafgangi annars vegar, og verulega aukinn vöruskiptahalla hins vegar. Þjónustuafgangur nam 220 mö.kr. á tímabilinu og jókst um 4 ma.kr. á milli ára, á meðan vöruskiptahalli reyndist 128 ma.kr. á fyrstu þremur fjórðungum ársins og jókst um 40 ma.kr. frá fyrra ári.

Í þjóðhagsspá greiningar Íslandsbanka, sem út kom í september síðastliðnum, var gert ráð fyrir að viðskiptaafgangur myndi reynast tæplega 5% af VLF (120-130 ma.kr.) í ár, samanborið við nærri 8% af VLF í fyrra.  Hinar nýbirtu tölur benda til þess að sú spá reynist nærri lagi, en hugsanlega verði afgangurinn þó eitthvað minni.