Marorka ehf. hagnaðist um 4,6 milljónir evra króna á síðasta ári, um 640 milljónir króna. Móðurfélag Marorku í Danmörku var lýst gjaldþrota í mars á síðasta ári. Lykilstarfsmenn félagsins keyptu þá íslenska félagið út úr þrotabúinu og héldu rekstri félagsins áfram. Afkoman litast af eftirgjöf skulda upp á 5,3 milljónum evra í tengslum við gjaldþrot móðurfélagsins og eigendaskiptin. Á móti felldi Marorka ehf. niður kröfur upp á 394 þúsund evrur.

Hefði verið sorglegt ef félagið færi í þrot

Darri Gunnarsson, framkvæmdastjóri Marorku, segir að tekist hafi að ná stöðugleika á rekstrinum í minna félagi. „Það hefði verið mjög sorglegt ef félagið hefði farið í þrot eins og leit út á tímabili því þá hefði mikil þekking og verðmæti glatast,“ segir Darri.

Margt hafi spilað inn í að tekist hafi að bjarga fyrirtækinu. Hann segir Marorku hafa mætt miklum velja og skilningi hjá birgjum, viðskiptavinum og starfsfólki. Kveðja hafi þurft starfsmenn sem bjuggu yfir mikilli þekkingu eftir eigendaskiptin. Starfsmönnum fækkaði úr 34 í 9 milli áranna árinu 2018.

Seld vara og þjónusta lækkaði úr 3,4 milljónum evra í 2,2 milljónir evra milli ára. Á móti lækkaði hins vegar rekstrarkostnaður félagsins verulega svo úr varð rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) upp á 111 þúsund evrum miðað við rekstrartap upp á 1 milljón evra árið 2017. Rekstrartap eftir afskriftir nam 37 þúsund evrum en afskriftir námu 230 þúsund evrum. Rekstrartap ársins 2017 nam hálfri milljón evra.

Sjá einnig: Lykilstarfsmenn kaupa Marorku

Eigið fé félagsins nam 1,08 milljónum evra í árslok 2018 en var neikvætt um 3,6 milljónir evra í árslok 2017, áður en eigendaskiptin voru gerð. Skuldir í lok árs 2018 námu 2,07 milljónum evra. Eignir námu 3,1 milljón evra, en þær samanastóðu að stærstum hluta af óefnislegum eignum.