Yfirmaður Volkswagen í Bandaríkjunum, Michael Horn, hefur viðurkennt að fyrirtækið hafi með óheiðarlegum hætti haft áhrif á útblástursprófanir á bílum sínum. Á föstudag greindu bandarískir eftirlitsaðilar frá því að útblástur díselbíla frá VW hafi verið mun meiri en prófanirnar gáfu tilefni til að ætla.

„Fyrirtæki okkar kom óheiðarlega fram við Umhverfisverndarstofnunina og Loftgæðaeftirlit Kalíforníu og við ykkur öll,“ sagði Horn. „Við klúðruðum þessu algerlega.“

Volkswagen gæti þurft að greiða allt að 18 milljarða dollara , eða tæpa 2.300 milljarða króna, í sektir eftir að hafa blekkt umhverfisyfirvöld þar í landi. Volkswagen er sakað um að hafa búið til hugbúnað sem blekkti eftirlitsaðila sem mældu útblástur á eiturefnum. Í gær féll gengi hlutabréfa Volkswagen um rúm 20% í kauphöllinni í Frankfurt vegna málsins.