„Stjórnvöld, fyrir utan ríkisstjórnina, eru enn að viðhalda þeim spuna í samfélaginu að þetta eigi að lenda á ríkissjóði sem leiðir hugann að því hvort seðlabankastjóri hafi yfirhöfuð lesið tillögur okkur framsóknarmanna. Því þetta gengur fyrst og fremst út á það að semja við kröfuhafa föllnu bankanna, þeir hafa farið sjálfir fram á nauðasamninga, til að geta náð út einhverjum af þessum erlendu eigum hér á landi,“ segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis í Morgunblaðinu í dag.

Aðspurð um neikvæða umsögn Seðlabankans segir hún að Framsóknarmenn hafi talið að leið þeirra væri alveg skýr um hvernig ætti að koma til móts við skuldug heimili.

Plástrahagfræði

Vigdís segir að plástrahagfræði síðustu ríkisstjórnar hafi öll gengið út á að hjálpa þeim sem standi verst þegar hún er spurð út í gagnrýni Seðlabankans á að almenn skuldaniðurfelling geri lítið fyrir þau heimili sem verst standa. „Það var farin 110% leið og fundin upp ýmis úrræði sem áttu að verða til þess að þessi mest skuldsettu heimili myndu ná að fóta sig á ný, það hefur ekki gerst. Við höfum alla tíð talað um að það þurfi að taka til almennra aðgerða og taka á þessum stóra hópi fólks sem hefur staðið í skilum allt þetta tímabil og ekki fengið neinar úrbætur,“ segir Vigdís.