Stjórnmálasamtök munu geta boðið fram til Alþingis einn framboðslista fyrir bæði kjördæmin í Reykjavík verði frumvarp þingmanna VG, Framsóknarflokks, Pírata og Samfylkingar að lögum. Árni Þór Sigurðsson þingmaður Vinstri grænna mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í gær.

Nú eru 13 þingmenn í kjördæmunum þremur á höfuðborgarsvæðinu en aðeins átta í Norðvesturkjördæmi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að allt frá því að gildandi kjördæmaskipting tók gildi um síðustu aldamót hefur skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi sætt gagnrýni fyrir ýmissa hluta sakir. Síðan þessi breyting tók gildi um síðustu aldamót hafi fjöldi þingmanna í kjördæmum breyst frá því að vera 10 þingmenn í landsbyggðarkjördæmunum þremur og 11 þingmenn í kjördæmunum þremur á höfuðborgarsvæðinu í það að vera 13 þingmenn í Suðvesturkjördæmi en 8 þingmenn í Norðvesturkjördæmi, en 10 og 11 þingmenn í hinum kjördæmunum fjórum. Munurinn sem var 1 þingsæti er nú orðinn fimmfaldur, þ.e. 5 þingsæta munur er á milli þeirra kjördæma sem hafa fæsta og flesta þingmenn.

Þá segir í greinargerðinni að engin efnisleg rök standi lengur til þess að Reykjavík, eitt sveitarfélaga landsins, sé skipt milli tveggja kjördæma. Af því leiðir að eðlilegast væri að leggja til að kjördæmin tvö í Reykjavík yrðu sameinuð. Til að gera slíka breytingu þyrfti hins vegar að breyta stjórnarskrá þar sem kveðið er á um fjölda kjördæma.