Nefnd um skipulag rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum telur reynsluna hér á landi og í nágrannalöndunum sýna ótvírætt að náið samspil þurfi að vera á milli þeirra sem annast rannsókn og ákvörðun í útgáfu ákæru í efnahagsbrotamálum. Af þeim sökum sé skilvirkast að þessum tveimur þáttum sé komið innan sömu stofnunar eins og tíðkast hefur hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, embætti sérstaks saksóknara, Økokrim í Noregi, SØIK í Danmörku og Ekobrottsmyndigheten í Svíþjóð.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu nefndarinnar til innanríkisráðherra um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum. Skýrslan var birt á vef Alþingis síðdegis í gær.

Ný stofnun er hagkvæmari

Í niðurstöðum skýrslunnar segir m.a. að lagt sé til að sett verði á fót ný stofnun sem taki við verkefnum embættis sérstaks saksóknara. Lagðar eru fram tvær tillögður. Önnur felur í sér að stofnunin verði reist á grunni embættis sérstaks saksóknara sem annist rannsóknir alvarlegra efnahagsbrota. Hún fari líka með með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi. Hin tillagan felur í sér að sett verði á fót tveggja eða þriggja stoða stofnun sem taki við verkefnum sérstaks saksóknara, skattrannsóknarstjóra og ákveðnum málshöfðunum ríkissaksóknara. Þetta, þ.e. sameiningin, telur nefndin að komi í veg fyrir tvíverknað við rannsókn mála.