Fjárfestir og „Íslandsvinurinn“ Vinchent Tchenguiz á undir högg að sækja þessa dagana en Lloyd´s bankinn hefur farið fram á að taka yfir stærsta íbúðasafn Bretlands sem er í eigu Tchenguiz. Þetta er gert eftir að þessir aðilar náðu ekki samkomulagi um hvernig Tchenguiz myndi endurgreiða 230 milljóna punda skuld við bankann. Um er að ræða um 50 þúsund íbúðir. Fjallað er um málið á vefsíðu Financial Times.

Samkvæmt dómsskjölum þá hefur Tchenguiz ekki greitt af lánum eða náð að selja eignir til að standa við skuldbindingar. Lögmenn Tchenguiz halda því fram að rannsókn Serious Fraud Office hafi valdið erfiðleikum með að endurfjármagna íbúðasafnið. Umrætt íbúðasafn var einnig notað sem veð fyrir 100 milljóna punda láni frá Kaupingi á sínum tíma.